Vatíkanið tilkynnti í gær að það hygðist á næstunni undirrita sitt fyrsta samkomulag við Palestínu, en tvö ár eru liðin frá því að Vatíkanið viðurkenndi Palestínu sem sjálfstætt ríki. Stjórnvöld í Ísrael hafa harmað þessa þróun mála og segja hana ekki uppbyggilegt skref fram á við.
Samkomulagið varðar áhrif og umsvif kaþólsku kirkjunnar í Palestínu, en að sögn talsmanns Vatíkansins hefur það viðurkennt sjálfstæði Palestínu frá því í febrúar 2013.
Í samtali við AFP benti Federico Lombardi á að í árlegum samantektum væri talað um fulltrúa Palestínu sem fulltrúa „ríkisins Palestínu“, en Ísraelar hafa brugðist ókvæða við þessum nýjustu fréttum og gagnrýna m.a. að í fyrrnefndu samkomulagi sé talað um „palestínska ríkið“.
„Þessi þróun er ekki til þess fallin að þoka friðarferlinu áfram og færir palestínsk stjórnvöld fjarri því að koma aftur að tvíhliða samningaviðræðum. Ísrael mun fara yfir samkomulagið og íhuga næstu skref,“ sagði embættismaður utanríkismálaráðuneytis landsins.
Hugsanlegt er að samkomulagið verði undirritað um helgina, en þá verður Mahmoud Abbas, forseti Palestínu, gestur í Vatíkaninu. Þá verða tveir palestínumenn teknir í dýrlingatölu.