„Hann breyttist í skrímsli“

Blóm lögð á staðinn þar sem sprengjuárásin var gerð.
Blóm lögð á staðinn þar sem sprengjuárásin var gerð. AFP

Réttlætinu hefur verið fullnægt með dauðadómi yfir Dzhokhar Tsarnaev, sem ásamt bróður sínum stóð að sprengjuárásinni á Boston-maraþonið 2013, að mati margra þeirra sem lifðu árásina af. Kviðdómur komst að þeirri niðurstöðu í gær að Tsarnaev ætti skilið dauðadóm. Þrír létu lífið í sprengjuárásinni og hundruð særðust. Margir alvarlega. Tvær sprengjur sprungu skammt frá marklínunni í maraþoninu þegar hlauparar voru að koma í mark. Sprengjurnar voru mjög öflugar og brotnuðu til að mynda gluggar í nærliggjandi byggingum.

Fram kemur í frétt AFP að engu að síður hafi viðbrögð þeirra sem lifðu árásina af verið blendin þegar niðurstaða kviðdómsins lá fyrir. „Hann fer til helvítis. Þangað vildi hann fara,“ er haft eftir Michael Ward, slökkviliðsmaður sem var viðstaddur þegar árásin var gerð og hjúkraði þeim sem særðust, eftir að niðurstaðan lá fyrir. „Ég man eftir sprengingunum og man eftir viðbjóðslegum gerðum þessa manns. Þetta snýst um réttlæti. Það er enginn að fagna þessu. Ef þú spyrð tíu manns um málið færðu tíu mismunandi viðbrögð.“

Tveir fullorðnir synir Liz Norden misstu hvor um sig fótlegg í sprengjuárásinni. Haft er eftir henni í fréttinni að hún væri hvenær sem er reiðubúin að vera viðstödd aftöku Tsarnaevs. „Ég vil réttlæti fyrir börnin mín. Mér finnst eins og þungu fargi hafi verið létt af mér. Dansarinn Adrianne Haslet-Davis, sem missti útlim í árásinni, skrifaði á Twitter-síðu sína: „Hugur minn er hjá öllum þeim sem lifðu árásina af. Ég fagna þessari niðurstöðu.“

Dauðarefsing aðeins möguleg vegna alríkislaga

Dauðarefsing var aðeins möguleg út frá alríkislögum þar sem Massachusetts-ríki felldi slíka refsingu úr lögum árið 1947. Skoðanakannanir bentu til þess að meirihluti íbúa ríkisins vildi frekar að Tsarnaev yrði dæmdur í lífstíðarfangelsi en til dauða. Sumir af þeim sem lifðu árásina af lögðust gegn dauðarefsingu. Þar á meðal foreldrar hins átta ára gamla Martin Richard sem höfnuðu því opinberlega að Tsarnaev fengi dauðadóm. Mótmælt var fyrir utan dómshúsið í gær eftir að kviðdómurinn komst að niðurstöðu.

Haft er eftir Melida Arredondo að hún hafi blendnar tilfinningar gagnvart niðurstöðunni. Aðallega vegna þess að við tækju væntanlega ferli endalausra áfrýjana dómsins. Laurie Scher sagði að réttarhöldin hefðu haft líknandi áhrif á hana og hjálpað henni að mynda sterk tengsl við aðra eftirlifendur. Dauðarefsingin hefði hins vegar ekki veitt henni neina sálarró. „Ég er viss um að hann var einhvern tímann indæll ungur maður. En hann breyttist í skrímsli. Hvað gerðist?“

Heather Abbott, sem missti vinstri fótlegg sinn fyrir neðan hné í sprengjuárásinni og hefur aðstoðað önnur fórnarlömb árásarinnar að verða sér úti um gervilimi, segist aðeins finna til sorgar eftir dóminn. Hún ritaði á Facebook að niðurstaðan veitti henni enga ró. Karen Brassard fagnar niðurstöðunni en sagðist ætla að biðja fyrir kviðdóminum. Verkefni hans hefði verið ótrúlega erfitt. Hún særðist í árásinni ásamt eiginmanni sínum og dóttur.

„Ég myndi ekki segja að ég sé ánægð með dóminn. Það er ekkert ánægjulegt við það að þurfa að taka einhvern af lífi,“ segir hún.

Dzhokhar Tsarnaev.
Dzhokhar Tsarnaev. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert