Sænsk kona að nafni Elisabeth Martinsson hvarf sporlaust árið 1982 af heimili sínu í San Francisco eftir að hafa starfað þar í tvo mánuði sem au pair. Nú, 33 árum síðar hafa örlög hennar loks komið í ljós.
Þann 17. janúar 1982 fékk Martinsson lánaða fjölskyldubifreiðina til þess að stökkva út í búð. Hún sneri aldrei aftur og engin spor fundust sem gátu leitt lögreglurannsóknina áfram. Lögreglan í San Francisco hefur nú staðfest að lík sem fannst í skógi í nágrenninu fyrir örfáum árum sé af Martinsson. Dánarorsökin liggur ekki fyrir enn.
Sænska dagblaðið Aftonbladet fjallaði ítarlega um hvarf hennar í fyrra. Var þar meðal annars rætt við fjölskylduföðurinn sem hún bjó hjá í San Francisco. Bar hann henni söguna vel, hún var kennaramenntuð og átti framtíðina fyrir sér.
Starfsmenn verslunar sem Martinsson heimsótti sögðust hafa séð hana klukkan 16 þann örlagaríka dag. Þegar hún hafði ekki skilað sér heim daginn eftir, hafði fjölskylda hennar í San Francisco samband við lögreglu og ítarleg leit fór af stað.
Lýst var eftir henni á plakötum í bænum. Vitni stigu fram sem sögðust hafa óþekktan mann aka um á fjölskyldubíl Martinssons. Lögreglan komst að því hver maðurinn var og var um að ræða þekktan glæpamann sem áður hafði verið dæmdur fyrir nauðgun. Hann gaf lélegar útskýringar á því hvers vegna hann ók um á bíl hennar, en þar sem lík hennar hafði ekki fundist, var einungis hægt að dæma hann fyrir bílstuld.
Lík Martinssons verður nú flutt heim til Svíþjóðar þar sem hún verður jörðuð.