Bein leið til Paradísar?

Fara þessar beint til Paradísar?
Fara þessar beint til Paradísar? Skjáskot af Twitter

Aðeins er um rúmt ár síðan hryðjuverkasamtökin Ríki íslams komust í heimsfréttirnar. Í júní á síðasta ári lýstu samtökin yfir stofn­un kalíf­a­dæm­is á þeim landsvæðum sem þau réðu þá yfir í Írak og Sýr­landi. Jafn­framt lýsti Ríki íslams því yfir að leiðtogi sam­tak­anna, Abu Bakr al-Bag­hda­di, væri nú kalífi mús­líma alls staðar í heim­in­um. 

Vígaverk samtakanna hafa vakið óhug um allan heim. Opinberar aftökur, svipuhögg, og húsleitir eru daglegt brauð á yfirráðasvæðum samtakanna, sem hafa þó minnkað töluvert síðan í haust.

En það sem skilur Ríki íslams frá öðrum hryðjuverkasamtökum eins og til að mynda al-Qaeda er gífurleg notkun á samfélagsmiðlum. Facebook, Twitter og Tumblr eru dæmi um samfélagsmiðla sem notaðir hafa verið til þess að dreifa áróðri og eiga starfsmenn miðlanna fullt í fangi með að loka síðum sem notaðar eru í þeim tilgangi. En þegar einni er lokað birtist ný yfirleitt mjög fljótt.

Fimmtán og sextán ára heillast á samfélagsmiðlum

Annað sem greinir Ríki íslams frá öðrum hryðjuverkasamtökum er gífurleg þátttaka vestrænna ríkisborgara í starfsemi samtakanna og þá sérstaklega kvenna.

Í febrúar greindu breskir fjölmiðlar frá því að þrjár stúlkur þar í landi, fimmtán og sextán ára, hefðu yfirgefið heimili sín í Lundúnum til þess að ganga til liðs við Ríki íslams. Stúlkurnar sögðu foreldrum sínum að þær væru á leið út yfir daginn en hafa ekki sést síðan. Talið er að stúlkurnar hafi rænt skartgripum af fjölskyldum sínum til þess að greiða fyrir ferðalag til Tyrklands. Á Gatwick-flugvelli í Lundúnum náðust stúlkurnar á upptöku eftirlitsmyndavélar. Stuttu síðar var greint frá því að þær væru í Raqqa í Sýrlandi.

Ekkert hefur heyrst frá stúlkunum fyrir utan eina mynd á Twitter sem ein þeirra birti í síðasta mánuði. Myndin sýnir steiktan kjúkling, franskar, flatbrauð og kebab. Kallar hún þetta dwala-skyndbita en dwala er oft notað sem heiti á svæði sem til­heyr­ir Ríki íslams.

Fyrr í vikunni var svo sagt frá því í breskum fjölmiðlum að stúlkurnar þrjár væru mögulega á flótta frá samtökunum. Íraskur bloggari sem skrifar frá Mosul sagði frá því að liðsmenn samtakanna væru nú að leita að þremur breskum stúlkum sem flúðu hjónabönd sín með bardagamönnum Ríkis íslams. Grunur leikur á að það séu bresku stúlkurnar þrjár.

„Jihad-brúðurin“ einn öflugasti liðsmaðurinn

Stúlkurnar frá Lundúnum eru ekki einsdæmi. Í febrúar var talið að um 550 konur frá Vesturlöndum hefðu farið til Íraks og Sýrlands til þess að ganga til liðs við Ríki íslams. Hundrað þeirra eru breskar.

Aqsa Mahmood er ein þeirra en hún er fædd og uppalin í Glasgow í Skotlandi. Einn nóvemberdag árið 2013 kvaddi Mahmood foreldra sína og yfirgaf heimili sitt. Foreldrarnir trúðu því að þá nítján ára dóttir þeirra væri á leið í skólann, enda var hún aðeins með skólatöskuna sína. Mahmood skilaði sér þó ekki heim í lok dags og fjórum dögum seinna lét hún þau vita að hún væri komin til Tyrklands og ætlaði þaðan til Sýrlands.

Mahmood var á tímabili dugleg við að tjá sig um lífið í Sýrlandi á samfélagsmiðlunum Twitter og Tumblr. Að mati margra sýndi hún þar ákveðna glansmynd af samtökunum og reyndi að láta líf kvennanna þar líta heillandi út. En Mahmood tjáir sig einnig um stríðið og hefur gagnrýnt loftárásir Bandaríkjahers harðlega. Hefur hún einnig gert lítið úr opinberum aftökum samtakanna á vestrænum föngum. Að mati breskra yfirvalda er Mahmood einn öflugasti liðsmaður Ríkis íslams þegar kemur að því að laða konur frá Vesturlöndum í samtökin. Hún hefur hlotið nafngiftina „Jihadi bride“ eða „Brúður heilags stríðs“. Mahmood hefur m.a. verið ásökuð um að hafa tælt stúlkurnar þrjár til Sýrlands en foreldrar hennar og hún sjálf hafa hafnað því.

Eins og gera má ráð fyrir voru foreldrar Mahmmod miður sín þegar þau gerðu sér grein fyrir því að dóttir þeirra væri í Sýrlandi og meðlimur hryðjuverkasamtaka. Þau hafa grátbeðið hana um að snúa aftur heim.

Las Harry Potter og hlustaði á Coldplay

Að sögn foreldra Mahmood var dóttir þeirra ósköp venjulegur unglingur þegar hún yfirgaf Glasgow. Samkvæmt grein The New York Times litu þau á hana sem gáfaða og vinsæla stúlku sem naut þess að lesa bækurnar um Harry Potter og hlusta á bresku sveitina Coldplay. Hún ætlaði að verða lyfjafræðingur eða læknir en það lítur út fyrir að framtíðaráætlanir hennar hafi breyst töluvert síðan þá. Hún gengur nú undir nafninu Umm Layth eða Móðir ljónsins á arabísku og hvetur kynsystur sínar til þess að ganga í hennar fótspor. Hefur hún veitt stúlkum ráð í gegnum samfélagsmiðla um hvernig sé best að komast til Sýrlands óséðar og hvað skal taka með sér.

Skeggjaðir menn og vopnaðar konur

Aamer Anwar, lögfræðingur fjölskyldu Mahmood, sagði í viðtali hjá CNN að það væri erfitt að segja til um hvað það er nákvæmlega sem heillar Mahmood og aðrar konur, sem búa við vellystingar á Vesturlöndum, við það að fara til stríðshrjáðra landa til þess að búa með hryðjuverkamönnum.

„En Ríki íslams er að selja pakka. Í honum felast ekki afhöfðanir eða ógeðsleg túlkun á íslam. Þegar maður skoðar Ríki íslams á samfélagsmiðlum má sjá myndir af ungum skeggjuðum mönnum og konum með höfuðklúta og byssur. „Ef þú kemur hingað færðu miða til Paradísar“ segja þau,“ sagði Anwar í viðtalinu.

Foreldrar Mahmood ræddu við fréttamann CNN í september á síðasta ári. Þar kom fram að dóttir þeirra hafi sagt þeim að hún hafi farið til Sýrlands til þess að verða píslavottur og að hún myndi sjá þau aftur á dómsdegi.

„Í einum skilaboðum sagði hún: „Ég mun sjá þig á dómsdegi. Ég mun fara með þig til himna, ég mun halda í höndina á þér“,“ rifjaði faðir Mahmood upp í viðtalinu.

Að sögn foreldra Mahmood var hún alin upp á hófsömu heimili þar sem trúin var ekki í fyrsta sæti. Síðustu ár hafði Mahmood þó farið að fræðast meira um íslam og farið að taka trú sína alvarlega. 

Heillast af hugmyndum um nýtt samfélag

Melanie Smith starfar í alþjóðadeild Kings College í Lundúnum og hefur verið að rannsaka samfélagsmiðlanotkun 21 breskra kvenna sem hafa gengið til liðs við Ríki íslams. Í samtali við blaðamann The Guardian á síðasta ári sagði Smith að hugmyndin um nýtt samfélag væri það sem laðar konurnar til samtakanna. Samfélag sem er byggt á þeim ýktum túlkunum á íslam sem Ríki íslams stendur fyrir.

Með því að nota samfélagsmiðla hefur Ríki íslams náð til staða sem samtökin hefðu annars ekki náð til. Tilvonandi nýliðar tengja við stúlkurnar sem þegar eru í Ríki íslams en margar þeirra lýsa því hversu hamingjusamar þær eru. Á bloggsíðum þeirra má meira að segja fá ráð um hvernig sé best að undirbúa ferð til Sýrlands eða Íraks.

Á Tumblr-síðu Mahmood bauð hún upp á ráð til kvenna sem voru að hugsa út í það að taka þátt í „heilögu stríði“ og lýsir því m.a. hvernig best sé að pakka. Hún segir að fyrir veturinn þurfi að eiga gott par af skóm og mælir með því að konurnar fái allar þær bólusetningar sem þær geta áður en þær koma. Hún leggur jafnframt áherslu á mikilvægi þess að konurnar giftist þegar þær mæta á svæðið.  „Raunveruleikinn er sá að það að vera hérna án karlmanns er mjög erfitt,“ skrifar Mahmood sem gekk í hjónaband fljótlega eftir að hún kom til Sýrlands. 

Að sögn Smith eru konurnar sem ganga til liðs við Ríki íslams að verða stöðugt yngri en dæmigerður aldur þeirra nú er 19 eða 20 ára. Þær líta á ferðalagið sem ævintýri og finnst mörgum heillandi hugmynd að giftast erlendum bardagamanni sem er látinn líta út fyrir að vera hetja sem sé tilbúin að fórna sér fyrir málstaðinn.

Áhugi kvennanna á karlpeningnum er það mikill að karlmenn innan samtakanna hafa beðið konur um að hætta að senda bónorð í gegnum internetið þar sem það er ekki leyfilegt innan íslams.

En hvað verður um þær?

Ljóst þykir að þær konur sem hafa gengið til liðs við Ríki íslams sleppa ekki þaðan auðveldlega og ef þær gera það er ekki víst að þær komist aftur heim. 

Í sjónvarpsþættinum Good Morning Britain sagði Theresa May, innanríkisráðherra Bretlands, að tekist væri á við mál þar sem Bretar snúa aftur heim úr „heilögu stríði“, eitt í einu. Sagði hún að nú þegar hefðu einhverjir Bretar ákveðið að koma aftur heim eftir að þeir áttuðu sig á „mistökunum sem þeir gerðu“ og að líf innan Ríkis íslams væri „ekki eins og þeir bjuggust við“.

Samkvæmt frétt Business Insider síðan í febrúar hafa frönsk yfirvöld handtekið 154 ríkisborgara sem snúið hafa aftur til Frakklands eftir að hafa barist með Ríki íslams. Bresk yfirvöld hafa handtekið 165 og þýsk yfirvöld telja þrjátíu af þeim 180 þýsku ríkisborgurum sem snúið hafa aftur afar hættulega.

Erfitt er að segja til um hver viðbrögðin yfirvalda verða ef stúlkurnar þrjár frá Lundúnum eða Aqsa Mahmood sjálf snúa aftur til Bretlands. En eitt er víst að þá eru þær ekki lengur saklausar unglingsstúlkur heldur fyrrverandi liðsmenn hryðjuverkasamtaka. 

Á þessu korti má sjá yfirráðasvæði Ríkis íslams í Sýrlandi …
Á þessu korti má sjá yfirráðasvæði Ríkis íslams í Sýrlandi og Írak. Brúnu svæðin eru yfirráðasvæði hryðjuverkasamtakanna á meðan appelsínugulu svæðin eru þau sem Ríki íslams hefur misst síðan í ágúst 2014. Pentagon
Kadiza Sultana, Amira Abase og Shamima Begum yfirgáfu heimili sín …
Kadiza Sultana, Amira Abase og Shamima Begum yfirgáfu heimili sín í Lundúnum í febrúar. EPA
Aqsa Mahmood (t.v) er talin vera einn öflugasti meðlimur Ríkis …
Aqsa Mahmood (t.v) er talin vera einn öflugasti meðlimur Ríkis íslams þegar það kemur að því að tæla aðrar konur til Sýrlands. Skjáskot af Twitter
Ákveðnir kvenkyns meðlimir Ríkis íslams hafa verið duglegar að tjá …
Ákveðnir kvenkyns meðlimir Ríkis íslams hafa verið duglegar að tjá sig á samfélagsmiðlum. Skjáskot af Twitter
Konur innan Ríkis íslams sýna glansmynd af lífi sínu á …
Konur innan Ríkis íslams sýna glansmynd af lífi sínu á Twitter. Skjáskot af Twitter
Þær segjast aldrei ætla að koma aftur heim og því …
Þær segjast aldrei ætla að koma aftur heim og því er engin þörf á vegabréfum. Skjáskot af Twitter
Leiðtogi Ríki íslams Abu Bakr al-Baghdadi,
Leiðtogi Ríki íslams Abu Bakr al-Baghdadi, AFP
Á þessari mynd, sem mannréttindasamtök birtu, sjást vígamenn Ríki íslams …
Á þessari mynd, sem mannréttindasamtök birtu, sjást vígamenn Ríki íslams snæða á fimm stjörnu veitingahúsi í Raqqa. Af vef syriahr.com
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert