Ríki íslams hrakið frá Palmyra

Hersveitir sýrlenska stjórnarhersins hröktu í dag vígamenn hryðjuverkasamtakanna Ríki íslams frá rústum hinnar fornu borgar Palmyra í Sýrlandi. Samtökin hafa til þessa eyðilagt nokkra staði þar sem merkar fornminjar hefur verið að finna og var óttast að Palmyra yrði næst í röðinni.

Fram kemur í frétt AFP að vígamenn Ríkis íslams hafi verið komnir að Palmyra, sem er á heimsminjaskrá Sameinuðu þjóðanna, þegar þeir voru hraktir frá þeim. Haft er eftir fulltrúa sýrlenskra stjórnvalda að rústirnar hafi ekki orðið fyrir skemmdum. Hins vegar væri enn full ástæða til þess að óttast um þær. Þá segir í fréttinni að stjórnarherinn hefði náð á sitt vald að nýju norðurhluta bæjarins Tadmur sem vígamennirnir tóku yfir í gær en bærinn er við hlið Palmyra.

Ríki íslams hóf mikla sók í Sýrlandi fyrir helgi og urðu í kjölfarið miklir bardagar við stjórnarherinn. Sýrlenski herinn segist hafa fellt yfir 130 vígamenn hryðjuverkasamtakanna en hefur ekki gefið upp neinar tölur um eigið mannfall.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert