„Það er gríðarleg stemning hérna og alir kyrjandi hástöfum,“ segir Una Sighvatsdóttir sem búsett er í Barcelona þar sem ríkir mikil gleði eftir að knattspyrnulið borgarinnar vann spænska deildarmeistaratitilinn í dag.
„Ég er stödd efst á Römblunni. Þar er lítill gosbrunnur sem heitir La Canaleta þar sem stuðningsmenn Barcelona hittast alltaf. Hér er gríðarleg þvaga af fólki og mikið af fjölskyldum. Allir syngja tryllta söngva. Bæði stuðningssöngva og sjálfstæðissöngva Katalóna eins og jafnan á leikjum gegn Madrídarliðunum í vetur. Þannig blandast sjálfstæðisbaráttan við knattspyrnuna.“
Barcelona er afar sigursælt lið en það breytir því ekki að gríðarleg stemning myndast í hvert sinn sem félagið vinnur. Stuðningsmennirnir þreytast greinilega ekki á því að fagna.
„Það er búið að loka mörgum götum hérna og margir lögreglumenn á staðnum ef eitthvað skyldi gerast og mikil umferðarteppa hefur myndast, sem gerist ekki oft í borginni.“
Una segir alla taka þátt í fagnaðarlátunum. „Það fara greinilega allir út og þeir sem eru á bílum eru með fánann út um gluggann. Við sáum meira að segja áðan sjúkrabíl sem setti sírenurnar í gang og lá á flautunni. Það er mikið sungið og verið að skjóta flugeldum. Stemningin er fjölskylduvæn og lögreglan passar upp á að enginn sé að drekka áfengi.“
Lionel Messi, sem margir telja besta knattspyrnumann allra tíma, skoraði í dag og er afar vinsæll á meðal stuðningsmanna. „Það var magnað að hlusta á fólksfjöldann kyrja áðan „MESSI MESSI MESSI!“ Það er ljóst að hann á sér marga aðdáendur.“
„Ég gæti best trúað því að það verði fagnað hérna langt fram á nótt,“ segir Una að lokum.