„Ef þú hrasar, þá deyrðu,“ lét Dean Potter ofurhugi hafa eftir sér í viðtali fyrir sjö árum. Hvað gerðist á laugardagskvöldið á eftir að koma í ljós en Potter og félagi hans Graham Hunt, 29 ára, fundust látnir fyrir neðan rúmlega 2.200 metra klett í Yosemite þjóðgarðinum í gær.
Dean Potter sem fæddist árið 1972 og var því 43 ára var einn þekktasti ofurhugi heims og hefur oft fengið hjörtun til að slá hraðar hjá þeim sem fylgst hafa með ævintýralegum ferli hans. Potter byrjaði í klettaklifri á menntaskólaárunum í heimabæ sínum New Boston í New Hampshire. Þar æfði hann sig í fjalli sem nefnist Joe English en klettarnir þar voru hluti af æfingasvæði hersins og þóttu mjög hættulegir. Potter hætti klifrinu um tíma þegar hann fór í háskóla enfljótlega hætti hann námi til þess að sinna ástríðu sinni, klifrinu með tækni sem hann var sjálfur höfundar að.
Lífið var ekki alltaf dans á rósum hjá Potter sem vann á daginn í verksmiðju sem framleiddi golfpoka og á kvöldin starfaði hann á skyndibitastað. Allir hans peningar fóru í klifurferðalög og kleif hann á þessum árum flesta þá kletta sem hann komst yfir. Hann rifjaði einhvern tíma upp daprar stundir á kvöldum eins og aðfangadagskvöld þar sem hann sat einn yfir samloku.
Boginn sem markaði upphafið að upplausn hjónabandsins
Í maí 2006 vakti hann mikla athygli,en um leið reiði, þegar hann kleif fyrstur alla Delicate Arch í Utah. Bogann kleif hann án trygginga og línu (free solo) en fram að þessu hafði verið þegjandi samkomulag og skilningur um að klettinn ætti ekki klifra sem svo sem ekki er skrýtið ef litið er til nafn hans. Klifrið átti eftir að draga dilk á eftir sér, Potter missti í kjölfarið styrktarsamning við útivistarfatnaðarframleiðandann Patagonia og einnig þáverandi eiginkona hans og klifurfélagi, Steph Davis. Síðar sagði Potter að þetta hafi sennilega markað upphafið að því sem koma skyldi, skilnaði þeirra hjóna.
Hann lét gagnrýnina ekki stöðva sig og í júlí sama ár kleif hann eina erfiðustu leiðina á El Capitan í Yosemite þjóðgarðinum í Kaliforníu (The Reticent Wall) og árið 2010 setti hann nýtt hraðamet á öðrum leiðum á El Capitan. Líkt og áður var engin lína né tryggingar með í för, aðeins poki með fallhlíf á bakinu.
Dreymdi flug en um leið fall
Fyrsta minning Potters tengdist flugi að því fram kom í viðtali við ofurhugann í myndskeiði sem birt var á vef Outside tímaritsins. „Þegar ég var lítill drengur var mín fyrsta minning tengd flugdraumi. Í draumnum flaug ég en ég féll líka,“ sagði Potter í viðtalinu og bætir við hann hafi alla tíð eftir það velt því fyrir sér hvort þetta væri fyrirboði um að hann myndi falla til bana. Líkt og raunin varð um helgina.
Potter lét þetta ekki stöðva sig, ekkert frekar en ítrekaðar martraðir um að falla til bana. Hann reyndi frekar enn meira á sig, klifraði hraðar og erfiðari leiðir. Allt til þess að sannfæra sjálfan sig um að hann hefði stjórn á hlutunum og um leið óttanum um að falla til bana, sagði hann í viðtali sem CNN fjallar um.
Eins og fuglinn fljúgandi
En klifrið var ekki næg áskorun heldur bættist við stökk fram af háum klettum, svo kallað base jump sem felur í sér að stokkið er fram af háum byggingum, brúm eða klettum og fallhlífin er ekki opnuð fyrr en undir lokin. Potter var sérfræðingur í svokölluðu base jump wingsuit stökki og minnti helst á fuglinn fljúgandi þegar hann stökk fram af klettabrún í búning sem minnir á fuglsham.
Til þess að ganga enn lengra stundaði hann göngu á línu (highlinging). Oft var línugangan hjá honum aðeins leið til þess að fá kröftugra fall, að kasta sér af línunni ofan í djúp gljúfur. Líkt og í öðrum tilvikum þar sem hann gekk eins langt og mögulegt var, þá var hann ekki með neinar tryggingar og ekki fastur í öryggislínu líkt og aðrir sem stunda jaðarsport sem þetta.
Eitt þeirra meta sem Potter skilur eftir sig er lengsta fall án trygginga (base jump) er hann stökk fram af tindi Eiger, eins hæsta fjalls Evrópu, en alls var hann 3:20 mínútur í frjálsu falli.
Ekki dauðaþrá
Þrátt fyrir alla áhættuna sem Potter tók á ferlinum þá neitaði hann því alltaf að dauðaþrá blundaði innra með honum. Hann viðurkenndi að vera spennufíkill en sagði um leið að þegar hætta var í nánd þá magnaðist öll skynjun hans og vitund hans aldrei skýrari. „Eitthvað leiftrar í huga mínum og ekkert annað í lífinu skiptir máli.“
<iframe allowfullscreen="" frameborder="0" height="480" src="https://www.youtube.com/embed/8zyZvEBuw_4" width="640"></iframe><div id="embedded-remove"> </div>Potter skrifaði á bloggvef Tony Suits, fyrirtækið sem framleiddi búning hans fyrir stökkin. „Undanfarið hef ég frekar litið á mig sem fugl fremur en mann.“ En hann bætti við síðar í greininni að sennilega sé þetta ekki rétt hjá honum því hann geti ekki þanið vængina til fulls í landi frelsisins og vísaði þar til þess að base jump er bannað í bandarískum þjóðgörðum. En ofurhugar sem National Geographinc segja að slíkt flug sé stundað en frekar á nóttu en degi þar sem færri þjóðgarðsverðir eru þá á ferli. Líkt og virðist hafa gerst um helgina í Yosemite þjóðgarðinum þegar Potter og Hunt tóku síðustu flugtökin.
Enn er óljóst hvað gerðist nákvæmlega en eftir því sem bandarískir fjölmiðlar komast næst virðast þeir hafa ætlað stökka af Taft Point (2.286m) en eitthvað farið úrskeiðis því hvorugur hafði opnað fallhlíf sína. Líklegast þykir að þeir hafi rekist utan í klett þegar þeir flugu í gegnum þröngt op og að þeir hafi hrapað til bana. Lík þeirra fundust í gærmorgun fyrir neðan Taft Point.
Tilbeðin af fólki um allan heim
Starfsmannastjóri Yosemite, Mike Gauthier, segir í samtali við Outside að sambýliskona Potters, Jen Rapp, sem fylgdist með þeim Potter og Hunt, ásamt unnustu Hunts, Rebecca Haynie, hafi heyrt hljóð sem minnti á árekstur en hefði líka geta verið hljóðið þegar fallhlíf opnast. En þegar tvímenningarnir svöruðu ekki talstöðvarkalli hans og komu ekki á staðinn sem þau ætluðu að hittast á eftir stökkið hafði hún samband við þjóðgarðsverði sem hófu strax leit.
Þrátt fyrir að Potter, sem bjó í þjóðgarðinum, hafi stundum lent saman við verðina í Yosemite þá vill Gauthier ekki ræða um hvort þeir hafi verið að brjóta reglur þjóðgarðsins. Það sem skipti máli er líðan fjölskyldna þeirra Deans og Grahams.
Hann bætir við í samtali við CNN: „Potter er fyrirmynd í Yosemite Valley samfélaginu og í klifurheiminum – hann er einn þeirra sem eru tilbeðnir og fólk lítur upp til.“
Einn helsti ofurhugi heims látinn
<iframe allowfullscreen="" frameborder="0" height="480" src="https://www.youtube.com/embed/ZvgxR0Rt_us" width="853"></iframe><div id="embedded-remove"> </div>