Kardinálinn Janis Francis Pujats, æðsti embættismaður kaþólsku kirkjunnar í Lettlandi, hefur valdið talsverðu fjaðrafoki eftir að hann sagði að afstaða Hitler og Stalín gagnvart samkynhneigðum hefði verð betri en frjálslynd stefnumótun Evrópusambandsins.
Ummælin lét Pujats falla þegar hann bar vitni fyrir þingnefnd sem rannsakar atvik þegar þak stórvörumarkaðar hrundi árið 2013. Kardinálinn fór víða um völl við yfirheyrslurnar og hélt því m.a. fram að slysið hefði orðið vegna „hverfandi siðferðis“, frekar en mistaka í byggingu húsnæðisins.
„Slysið má ekki eingöngu rekja til tæknilegra orsaka,“ sagði hann. Pujats sagði að jafnvel Hitler og Stalín hefðu ekki vogað sér að taka til kynmaka milli karlmanns og pilts í stefnumótun sinni og að Evrópusambandið væri í herferð gegn kristinni trú.
Mannréttindahópar hafa gagnrýnt ummælin. Kristine Garina, framkvæmdastjóri samtakanna Mozaika, sagði í samtali við AFP að þau væru í raun hlægilega fáránleg, en hins vegar hefði Pjuats átt að sýna meiri nærgætni vegna þess hversu mikil áhrif hann hefur í samfélaginu.
Dagana 15.-21. júní nk. verður stærsta Gay Pride-hátíð Evrópu, Europride, haldin í Riga. Lettar þykja þó nokkuð íhaldssamir þegar kemur að málefnum samkynhneigðra en utanríkisráðherra landsins, Edgars Rinkevics, var lofaður mjög þegar hann sagði frá því í fyrra að hann væri samkynhneigður.