Grípa til neyðarúrræðis

Úkraína berst í bökkum og freistar þess að komast hjá …
Úkraína berst í bökkum og freistar þess að komast hjá greiðslufalli. AFP

Stjórnvöld í Úkraínu tilkynntu í dag að þau hygðust biðja þingið um að samþykkja lög sem heimila frestun greiðslna til lánadrottna ríkisins, sem nema milljörðum Bandaríkjadollara. Samningaviðræður standa yfir um skuldir Úkraínu, en þær miða m.a. að því að spara ríkinu 15,3 milljarða dollara næstu fjögur árin og koma í veg fyrir greiðslufall.

Samkomulag um endurgreiðslur skulda úkraínska ríkisins er forsenda þess að það fái næsta hluta 17,5 milljarða dollara láns frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, en það er hluti 40 milljarða dollara björgunarpakka.

Í tilkynningu frá ríkisstjórninni sagði að fyrir þinginu lægi að samþykkja lög sem heimiluðu, ef til þess kæmi, að greiðslur til erlendra kröfuhafa yrðu frystar. „Ef til árásar kemur á Úkraínu af hendi ófyrirleitinna lánadrottna, mun þessi greiðslufrestun vernda ríkiseignir og og hinn opinbera geira,“ sagði í tilkynningunni.

Skuldir Úkraínu samanstanda að stærstum hluta af skuldabréfum. Upphæð þeirra nemur um 17 milljörðum dollara, þar af eru skuldabréf að upphæð 10 milljarðar dollara í eigu fimm einkaaðila. Ríkið hefur staðið í heiftarlegum samningaviðræðum við fjárfestingafyrirtækið Franklin Templeton Investments, sem fer fyrir lánadrottnahópnum.

Stjórnvöld sögðu í síðustu viku að þau hefðu áhyggjur af þeirri nálgun sem viðsemjendur þeirra hefðu valið, en hópurinn ku hafa neitað að samþykkja lægri vexti eða framlengingu lánanna. Þá eru lánadrottnarnir afar óánægðir með hugmyndir þess efnis að þeir samþykki að afskrifa hluta skuldanna, líkt og samið var um í Grikklandi.

Samkvæmt AFP gera heimildarmenn innan ríkisstjórnarinnar ráð fyrir að lagafrumvarpið verði samþykkt án tafa á þinginu. Lögin ná ekki til ríkisskulda í eigu tveggja ríkisrekinna banka né annars ríkisfyrirtækis. Viðræður um þær skuldir eru aðskildar frá fyrrnefndum viðræðum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert