Ólöglegt að baka ekki hinsegin kökuna

Á kökunni áttu að vera myndir af brúðum úr Sesame …
Á kökunni áttu að vera myndir af brúðum úr Sesame Street.

Bakarí sem rekið er af kristnum á Norður-Írlandi var í dag dæmt fyrir að mismuna fólki er það  neitaði að baka tertu til stuðnings hjónabandi samkynhneigðra í landinu. 

Bakaríið, Ashers Baking Company, sem dregur nafn sitt af persónu úr gamla testamentinu, tók við pöntuninni en neitaði að lokum að gera kökuna. Á henni áttu að vera myndir af tveimur brúðum úr Sesame Street, þeim Bert og Ernie. Sögðu eigendur bakarísins að gerð kökunnar stríddi gegn trú þeirra og því sem fram kemur í Biblíunni.

Sjá frétt mbl.is: Bert og Ernie út úr skápnum?

„Sakborningurinn hefur ólöglega mismunað stefnandanum á grundvelli kynhneigðar,“ sagði dómarinn Isobel Brownlie í dómshúsinu í Belfast í morgun er hún kvað upp sinn dóm. „Það er engin réttlæting fyrir slíkri mismunun.“

Dómshúsið var fullt út úr dyrum í morgun enda hefur málið vakið gríðarlega athygli. Norður-Írland er eini hluti Bretlandseyja sem enn hefur ekki lögleitt hjónabönd samkynhneigðra. Ítök kristinna, bæði mótmælenda og kaþólskra, eru enn mikil á svæðinu. 

Á föstudag fer fram þjóðaratkvæðagreiðsla á Írlandi, nágranna Norður-Íra, um hvort lögleiða eigi hjónabönd samkynhneigðra. Talið er að það verði samþykkt.

Málið var höfðað af hálfu jafnréttisnefndar Norður-Írlands sem hefur m.a. það hlutverk að skoða mál er snerta lög um misrétti. Nefndin höfðaði málið fyrir hönd grasrótarsamtakanna Queer Space.

Kakan var pöntuð fyrir veislu einkaaðila sem haldin var á alþjóðlegum baráttudegi gegn fordómum í garð samkynhneigðra á síðasta ári. 

Um 80 manns vinna í Ashers-bakaríum sem er bæði að finna í Bretlandi og á Írlandi. Vörn þeirra í málinu var stutt af samtökunum Christian Institute. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert