Sakar Norðmenn um græðgi

Norsk stjórnvöld ætla að gefa út leyfi til að leita …
Norsk stjórnvöld ætla að gefa út leyfi til að leita að olíu á nýjum svæðum á norðuskautssvæðinu. Mynd/Øyvind Hagen

Norski metsöluhöfundurinn Karl Ove Knausgård gagnrýnir „skammsýni og heimsku“ áforma Norðmanna um að víkka út olíuleit sína á norðurheimsskautinu. Rithöfundurinn fer fyrir hópi aðgerðasinna sem ætlar að reyna að stöðva leyfisveitingar til olíufélaga fyrir dómstólum.

Ríkisstjórn Noregs auglýsti starfsleyfi til olíuleitar á nýjum hlutum norðurskautssvæðisins í fyrsta skipti í tuttugu ár í janúar. Ástæðan var sögð sú að nýju svæðin væru mikilvæg til að olíuiðnaðurinn gæti áfram lagt sitt af mörkum til velferðarríkisins. Knausgård segir að umhverfið sé brýnasta mál nútímans. Hann segir að olíu- og gasleit á norðurskautssvæðinu hafi ekkert með nauðsynleg málefni eins og að berjast gegn fátækt að gera.

„Noregur er eitt af ríkustu löndum heims, þetta snýst allt um græðgi og er helvítis skömm,“ segir rithöfundurinn.

Um tvö hundruð þjóðþekktir einstaklingar og umhverfisverndarsamtök hafa skrifað undir undirskriftarlista til stuðnings dómsmáli sem stendur til að höfða í haust. Grundvöllur þess verður nýleg breyting á stjórnarskránni sem gerir stjórnvöldum skylt að nýta auðlindir með langtímahagsmuni í huga, þar á meðal svo að varðveita megi umhverfið fyrir komandi kynslóðir.

Knausgård segir að honum hafi fram að þessu fallist hendur í ljósi eyðileggingar manna á umhverfinu. Olíuleitin á norðurskautssvæðinu var hins vegar af öðrum meiði.

„Norðurskautið er einn af fáum stöðum sem enn eru eftir óspilltir á jörðinni, þetta er afar viðkvæmt svæði og ég hefði aldrei trúað því að ríkisstjórnin mín myndi gera eitthvað þessu líkt. Við verðum að láta þau hætta og við getum enn gert það. Skammsýnin og heimskan lætur mig langa til þess að gráta,“ segir Knausgård.

Frétt The Guardian af andófi gegn frekari olíuleit Norðmanna

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert