Þýskar lestarsamgöngur voru lamaðar í dag vegna ótímabundins verkfalls lestarstjóra en um er að ræða níunda skiptið á innan við ári sem lestarstjórar í Þýskalandi fara í verkfall. Gert er ráð fyrir að verkfallið að þessu sinni standi allavega í viku. Fram kemur í frétt AFP að þýska lestarfyrirtækið Deutsche Bahn hafi fellt niður tvo þriðju hluta lengri lestarferða í dag.
Ennfremur segir í fréttinni að þýsk stjórnvöld undirbúi lagasetningu sem ætlað er að hindra lítil verkalýðfélög í að setja heilu atvinnugreinarnar í uppnám. Verkfallið að þessu sinni hófst í gær þegar lestarstjórar flutningalesta lögðu niður störf en á miðnætti í gær náðu aðgerðirnar einnig til farþegalesta. Verkalýðsfélag lestarstjóranna hefur ekki upplýst hversu lengi verkfallið muni standa en sagt að það yrði allavega lengra en sex dagar. Tilkynnt yrði með 48 klukkustunda fyrirvara hvenær aðgerðunum yrði hætt.