Mörgum þykja tannlæknaferðir hin mesta martröð og krakkar og jafnvel fullorðnir gera hvað sem er til að sleppa þeim ferðum. Fáir lenda þó í því sem krakkarnir sem komu til Howard Schneider lentu í. Síðastliðnar þrjár vikur hafa verið stöðug mótmæli fyrir utan tannlæknastofuna hans og foreldrar barna sem hafa farið til hans ná ekki upp í nefið á sér fyrir reiði. Ástæðan er sú að Schneider kom illa fram við börnin og framkvæmdi óþarfa aðgerðir á þeim.
Mótmælin hófust þegar Brandi Motley sagði frá því þegar hún fór með dóttur sína, Bri'el, til Schneider til að láta draga úr henni eina tönn. Þegar þangað var komið mátti Motley ekki vera hjá dóttur sinni þegar draga átti tönnina úr, aðstoðarkona tannlæknisins sagði að krakkar hegðuðu sér yfirleitt betur einir.
Motly beið í biðstofunni í þrjá klukkutíma, sem henni þótti undarlega langur tími. Aðstoðarkonan kom síðan fram og sagði að óhapp hefði átt sér stað. Bri'el kom fram, öll úti í blóði og andaði ótt og títt. Mæðgurnar drifu sig rakleitt á bráðamóttökuna og þá kom í ljós að það vantaði nánast allar tennurnar í stúlkuna, Schneider hafði þá dregið úr henni sjö tennur í stað einnar. Bri'el sagði að tannlæknirinn hefði slegið hana og tekið kyrkingataki. Það var svo þegar lögreglan ákvað að gera ekkert í málinu sem Motley lét myndirnar af dóttur sinni eftir tannlæknatímann á facebook, til að vara aðra foreldra við.
Fleiri foreldrar stigu fram með svipaðar sögur þegar þeir sáu myndirnar sem Motley sýndi á facebook. Amanda Barry er heyrnalaus og fór með son sinn til Schneider, sem tók að ástæðulausu tvær tennur úr honum. Sonurinn sagði að tannlæknirinn hefði tekið hann kyrkingataki og hann hafi öskrað og öskrað en mamma hans hafði ekki hugmynd um það.
Ástæðan fyrir þessum tíðu tanntökum Schneider eru að félagslega heilbrigðiskerfið Medicaid borgar honum upphæð fyrir hverja tönn sem það fær frá honum. Hann hefur grætt tæpar 4 milljónir dollara á þessum aðgerðum á síðustu fimm árum.
Lögfræðingurinn Gust Sarris er hneykslaður á því að Schneider sé ennþá með tannlæknaleyfi. Tennur séu teknar úr börnum að ástæðulausu og þau sendar í aðrar aðgerðir en þau þurftu. Schneider hefur áður lent í svipuðum aðstæðum en árið 1995 náðist sátt í máli utan dómssals þar sem hann lét 16 óþarfa krónur í munnin á þriggja ára dreng. Fjölskyldan hans hlaut skaðabætur.
Fjölmiðlar vestanhafs hafa gert ítrekaðar tilraunir til að ná tali af Schneider. Eina sem hann vill segja er að allar þessar staðhæfingar foreldranna séu lygar, hann hafi ekki gert neitt rangt. Foreldrarnir vilja hann bak við lás og slá og að hann fái aldrei aftur að stunda tannlækningar. Lögreglan rannsakar hann fyrir svik, hvernig hann fór að því að svíkja pening út úr Medicaid en á meðan er honum frjálst að stunda tannlækningar.