Timo Soini, formaður Sannra Finna, hefur verið skipaður utanríkis- og Evrópumálaráðherra nýmyndaðrar ríkisstjórnar Finnlands. Flokkur hans hefur verið afar andsnúinn Evrópusambandinu. Aðhald og örvun hagvaxtar eru sögð helstu baráttumál nýju ríkisstjórnarinnar.
Hægriöfgaflokkurinn Sannir Finnar eru nú í fyrsta skipti í ríkisstjórn eftir að hann nærri því fimmfaldaði fylgi sitt í þingkosningunum sem fóru fram 17. apríl. Juha Sipilä, nýr forsætisráðherra Finnlands og formaður Miðflokksins, kynnti ríkisstjórn sína í morgun en hún er samsteypustjórn þriggja flokka. Auk Miðflokksins og Sannra Finna á Sameiningarflokkurinn aðild að ríkisstjórninni.
Á blaðamannafundi í Helsinki í morgun ræddu leiðtogar flokkanna ríkisstjórnarsáttmálann. Þar kom fram að nýja stjórnin muni leggja áherslu á að draga úr skuldum ríkisins en einnig að koma hagvexti aftur af stað með opinberum framkvæmdum, að því er kemur fram í frétt finnska ríkisútvarpsins YLE.