Stúlkurnar í þjálfun í Raqqa

Stúlkurnar sjást hér á upptöku úr öryggismyndavél á Gatwick-flugvelli í …
Stúlkurnar sjást hér á upptöku úr öryggismyndavél á Gatwick-flugvelli í London á leið til Tyrklands. EPA

Bresku skólastúlkurnar þrjár, Shamima Begum, Amira Abase og Kadixa Sultana, sem fóru frá Bretlandi til Sýrlands til að ganga til liðs við hryðjuverkasamtökin Ríki íslams, gangast nú undir fjögurra mánaða þjálfun í Raqqa vegna „sérstakts verkefnis.“ Stúlkurnar þrjár hafa allar haft samband við fjölskyldur sínar. 

Þetta segir 22 ára gömul kona sem tilheyrði samtökunum þar til nýverið í viðtali við Sky-sjónvarpsstöðina. Ræddi hún við fjölmiðilinn frá Tyrklandi.

Hlutverk konunnar var að taka á móti stúlkum frá öðrum löndum sem komu yfir landamærin til Sýrlands. Átti hún að kynna stúlkurnar fyrir lífinu innan samtakanna. Hún fór með stúlkurnar þrjár til Raqqa þar sem þær gangast nú undir þjálfun.

Stúlkurnar ungar og barnalegar

Konan, sem kallar sig Um Asmah, segist hafa verið hissa að sjá hversu ungar og barnalegar skólastúlkurnar þrjár voru. Hún segir að stúlkurnar hafi verið glaðar en aftur á móti ekki tilbúnar fyrir líf á bak við slæðuna. Ein stúlknanna sýndi bílstjóra til að mynda andlit sitt og var þegar í stað ávítt fyrir það.

Asmah segir að fólk sem komi til Sýrlands og gangi til liðs við samtökin sé kennt að berjast og taka þátt í verkefnum í Sýrlandi og í Írak. Aðrir hafa aftur á móti fengið önnur verkefni, að fara aftur til Evrópu og gera árásir þar. Þá segir Asmah að hugsanlegt sé að nú þegar sé verið að þjálfa fólk á vegum samtakanna í Evrópu.

Munu láta lífið í Írak eða Sýrlandi

Asmah segist ekki vita nákvæmlega hvar stúlkurnar eru í dag en efast um að þær hafi verið giftar mönnum innan samtakanna. Aðspurð um hvort stúlkurnar megi snúa heim sagði hún að þær myndu „aldrei“ fara heim og muni líklega láta lífið í Írak eða í Sýrlandi.

„Ríki íslams  geta stjórnað hugum ungs fólks. Ef þau geta sannfært útlendinga, þá er jafnvel enn auðveldara að sannfæra Araba og Sýrlendinga,“ segir Asmah.

Hún mun ekki snúa aftur til samtakanna og segist lifa í ótta við að liðsmenn þeirra nái að hafa upp á henni. „Ég er svikari,“ segir hún. „Ég er hrædd á hverjum degi, hverja mínútu og við hvern sem ég hitti.“

Umfjöllun Sky-sjónvarpsstöðvarinnar

Hafa haft samband við fjölskyldur sínar

Guardian greinir frá því að ein stúlknanna hafi hringt í fjölskyldu sína og sagst vera við góða heilsu. Hún hafi aftur á móti ekki hugsað sér að snúa aftur heim. Hinar tvær hafa haft samband við fjölskyldur sínar í gegnum internetið. 

Fjölskyldur stúlknanna hafa gagnrýnt lögregluna í Bretland fyrir að hafa ekki gefið þeim upplýsingar sem hún hafði undir höndum. Hefðu fjölskyldur stúlknanna haft upplýsingarnar, hefði hugsanlega verið hægt að stöðva för þeirra. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert