Bandarískur unglingspiltur sem situr í fangelsi fyrir að hafa myrt föður sinn sem hann segir hafa beitt sig ofbeldi árum saman, hefur nú verið ættleiddur.
Á miðvikudag varð Eileen Siple formlega móðir hins 19 ára gamla Robert Richardson III, en hún hefur verið hans helsti stuðningsmaður síðustu þrjú árin.
Richardson skaut föður sinn til bana fyrir rúmum þremur árum síðan, þegar hann var sextán ára gamall. Hann segir föður sinn hafa verið ofbeldisfullan, sérstaklega eftir að líffræðileg móðir Richardsons lést úr krabbameini þegar hann var tíu ára.
Richardson var fundinn sekur um manndráp eftir að hann játaði á síðasta ári og dæmdur í 18 ára fangelsi.
Siple hefur lengi litið á Richardson sem son sinn, en líffræðileg fjölskylda hans neitar fyrir að hann hafi nokkru sinni verið beittur ofbeldi af hálfu föður síns. Siple segist þó ekki vera í vafa um það og reynir nú að fá lögmann til að hjálpa sér að fá sakfellinguna fellda niður.
Saksóknarar bentu ítrekað á það að vandamál á heimilinu hefðu aldrei verið tilkynnt.
„Ég trúi ekki að nokkur kviðdómur í heiminum myndi finna hann sekan,“ sagði Siple. „Hann trúði bara virkilega að faðir hans myndi drepa hann einn daginn.“ Þá sagði hún Richardson aldrei hafa liðið betur en síðustu þrjú árin því í fyrsta skipti liði honum öruggum.
Richardson mun taka upp eftirnafn Siple og flytja til hennar þegar hann losnar úr fangelsi.