Fyrsta konan í 194 ár

Katharine Viner ritstjóri Guardian
Katharine Viner ritstjóri Guardian Af vef Guardian

Tímamót urðu á breska dagblaðinu Guardian í dag er Katharine Viner tók við sem ritstjóri blaðsins. Viner er fyrsta konan sem ritstýrir Guardian í 194 ára sögu blaðsins. Hún er tólfti ritstjóri Guardian en hún tekur við af Alan Rusbridger sem hefur gegnt starfinu síðustu 20 árin.

Katharine Viner (hún er yfirleitt alltaf kölluð Kath) er fædd árið 1971 og er 44 ára gömul. Hún er alin upp í Yorkshire og nam við Ripon grunnskólann. Þegar Viner var sextán ára var birt verðlaunagrein eftir hana í Guardian þar sem hún fjallaði um breytingar sem verið var að gera á skólakerfinu í Bretlandi. Hún velti blaðamennsku hins vegar ekkert sérstaklega fyrir sér og hóf nám í ensku við Pembroke College í Oxford.

Hélt að blaðamennska væri fyrir jakkafataklædda karla

Skömmu fyrir útskrift vann hún ritgerðarsamkeppni sem kvennasíða Guardian stóð fyrir og fékk í kjölfarið þær ráðleggingar frá þáverandi ritstjóra kvennasíðunnar, Louise Chunn, að hún ætti að leggja blaðamennsku fyrir sig. 

„Ég hélt hreinlega að  blaðamennska væri ekkert fyrir mig. Ég hélt að það væri eitthvað fyrir jakkafataklædda karla í Lundúnum,“ rifjaði Viner upp árið 2005. 

Að námi loknu fór hún starfsnám hjá Cosmopolitan tímaritinu en fékk fljótt stöðuhækkun hjá tímaritinu enda ljóst að hæfileikamanneskja var hér á ferð. Síðan tók við starf hjá Sunday Times í þrjú ár en árið 1997 lá leið Viner til Guardian þar sem örlög hennar voru ráðin.

Í fyrstu var hún blaðamaður á kvennasíðum blaðsins en 1998 varð hún ritstjóri Weekend fylgiblaðsins. Árið 2006 ritstjóri sérefnis (features editor) og aðstoðarritstjóri árið 2008 á sama tíma og Ian Katz sem var hennar helsti keppinautur um ritstjórastólinn.

Skrifaði sögu Rachel Corrie

Auk þess að hafa getið sér gott orð sem blaðamaður, fréttastjóri og ritstjóri þá vakti Viner athygli fyrir samstarf hennar og leikarans Alans Richmans, en þau skrifuðu leikverkið My Name Is Rachel Corrie upp úr dagbók Corrie. 

Rachel Corrie lést 23 ára gömul, fyrir tólf árum, þegar jarðýta ísraelska hersins ók yfir hana þar sem hún reyndi að stöðva niðurrif heimilis palestínskrar fjölskyldu á Gaza. Corrie tók þar þátt í baráttu alþjóðlegra samstöðusamtaka með málstað Palestínubúa og hafa samherjar hennar alla tíð haldið því fram að dauði hennar hafi ekki verið slys. Ýtustjórinn hafi séð hana allan tímann, þar sem hún stóð uppi á moldarhaug í neonlitu vesti.

Ástralía og Bandaríkin á rúmu ári

Í janúar 2013 flutti Viner til Sydney í Ástralíu til þess að stýra vefútgáfu Guardian þar í landi sem fór í loftið í maí 2013. Gríðarlegur vöxtur hefur verið í starfseminni þar eða eins og fráfarandi ritstjóri Guardian orðaði það: „Hún tók Ástralíu með áhlaupi áður en hún tók við stjórn Guardian í Bandaríkjunum.“ 

Viner fór síðan til New York síðasta sumar þar sem hún tók við stjórnartaumunum hjá Guardian í Bandaríkjunum. Það var síðan 20. mars sl. sem tilkynnt var um að hún yrði næsti ritstjóri Guardian og tók hún við starfinu í dag. Þar með er hún eina konan sem stýrir dagblaði í Bretlandi.

Það var í desember sem Rusbridger tilkynnti um afsögn sína sem ritstjóri og að hann myndi taka við sem stjórnarformaður Scott-sjóðsins, sem á Guardian og Observer, en það tók þrjá mánuði að velja eftirmann hans. 

Starfsmennirnir vildu Viner

Í byrjun mars var birt niðurstaða skoðunarkönnunar meðal starfsmanna Guardian og Observer, alls 964 manns, um hver væri þeirra fyrsti kostur þegar kæmi að vali á ritstjóra. 53% þeirra sem tóku þátt settu Viner í fyrsta sæti en alls tóku 87% starfsmanna þátt í könnuninni. Með þessu var tryggt að Viner yrði meðal þeirra fárra útvöldu þegar stjórn Scott-sjóðsins myndi velja ritstjóra. 

Það var síðan Liz Forgan, fráfarandi stjórnarformaður Scott-sjóðsins, sem tilkynnti ákvörðun stjórnar eftir sjö tíma langan fund þann 20. mars sl. Forgan segir að Viner hafi borið af þeim sem komu til greina sem ritstjórar þrátt fyrir marga góða kosti en alls voru umsækjendurnir 26 talsins. Á þeim átján árum sem hún hafi starfað hjá Guardian hafi hún gegnt nánast öllum störfum á ritstjórninni. Þaer á meðal stýrt Guardian í Bandaríkjunum og Ástralíu. Hún hafi alls staðar þótt hvetjandi og gefandi leiðtogi meðal annarra starfsmanna og Viner hafi vakið athygli fyrir sköpunargáfu og raunsæi sem fari vel saman við gildi fjölmiðilsins.

Þekking á netinu skipti miklu

Bent er á það af öðrum fjölmiðlum að Kath Viner hafi það fram yfir marga aðra sem komu til greina að hafa unnið á netútgáfum Guardian enda liggi framtíðin þar. Á sama tíma og lesendum dagblaðsins Guardian fækkar jafnt og þétt þá fjölgar lesendum Guardian á netinu. Guardian sé sjötti mest lesni fréttavefurinn í Bandaríkjunum og sá fjölmiðill sem oftast er vísað til á Facebook.

Guardian sé varla lengur breskt dagblað heldur miklu fremur alþjóðlegur fjölmiðill sem hefur vakið mikla athygli í tengslum við birtingu gagna Wikileaks og Edwards Snowdens. Í fyrra hlaut Guardian sín fyrstu  Pulitzer verðlaun fyrir birtingu Snowden-gagnanna ásamt Washington Post.

Viner, sem skipar sæti 80 á lista Forbes yfir áhrifamestu konur heims, er önnur konan sem tekur við ritstjórastarfi hjá gamalgrónu dagblaði á stuttum tíma. Í janúar tólk Audrey Cooper við starfi ritstjóra San Francisco Chronicle og var þar fyrst kvenna til að gegna starfinu í 150 ára sögu blaðsins. En það er ekki nóg með að Cooper sé fyrsta konan heldur er hún yngsti ritstjóri stórblaðs í Bandaríkjunum en hún er 37 ára gömul. Zanny Minton var ráðin ritstjóri Economist í janúar og er þar fyrsta konan til þess að ritstýra tímaritinu í 171 árs sögu þess. Hún var eina konan af 13 umsækjendum um starfið.

First day in new job <a href="https://t.co/h23emvgucA">https://t.co/h23emvgucA</a>

Katharine Viner birti þessa mynd í morgun á Twitter en …
Katharine Viner birti þessa mynd í morgun á Twitter en þetta er hennar fyrsti dagur í sæti ritstjóra Guardian. Af Twitter-síðu Katharine Viner
Skrifstofur Guardian í Lundúnum
Skrifstofur Guardian í Lundúnum AFP
Alan Rusbridger
Alan Rusbridger AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert