Unga fólkið flýr frá Írlandi

Ungir Írar voru sérlega áberandi í baráttunni fyrir lögleiðingu hjónabands …
Ungir Írar voru sérlega áberandi í baráttunni fyrir lögleiðingu hjónabands samkynhneigðra í landinu sem bar ávöxt í maí mánuði. AFP

Íbúum Írlands á þrítugsaldri hefur fækkað um yfir 200 þúsund frá því fyrir sex árum síðan. Þetta kemur fram í grein The Irish Times en þar segir að fjöldi fólks á bilinu 20 til 29 ára hafi fallið úr 755 þúsund árið 2009 í 549.300 árið 2014 en það er 27,2 prósent fækkun.

Næstum allir aðrir aldurshópar hafa vaxið en fjöldi 15 til 19 ára hefur þó einnig fallið úr 294.300 í 279.100 á síðustu fimm árum. Mest fækkun hefur orðið í hópi 20 til 24 ára fólks en fækkað hefur um þriðjung í þeim hópi, úr 400.600 í 305 þúsund, eða um 23 prósent.

Fækkunin meðal karla og kvenna á þrítugsaldri er nokkuð jöfn, um 27 prósent fyrir hvort kyn en fækkun yngri kvenna í aldurshópnum er mun meiri. Konum milli 20 og 24 ára aldurs hefur fækkað um 34 prósent á tímabilinu úr 180 þúsund í 119.300.

Í grein The Irish Times kemur fram að ein af ástæðunum fyrir fækkun í þessum hópi sé einfaldlega vegna þess að færri börn hafi fæðst á miðjum og seinni hluta níunda áratugarings. Stór ástæða þessarar miklu fækkunar sé þó sú að ungt og vel menntað fólk flyst í auknum mæli úr landi m.a. vegna skorts á tækifærum heima fyrir.
Frá árinu 2009 hafa um 480 þúsund manns flust af landi brott en þar af voru 228 þúsund með írskt ríkisfang. Það samsvarar því að 3.000 manns hafi yfirgefið landið á hverjum mánuði yfir sex ára tímabil.

Atvinnuleysi meðal ungs fólks í Írlandi er afar há eða um 30% þó ljóst sé að það væri enn meira hefði ekki orðið viðlíka fólksflótti og raun ber vitni.

Á meðan hefur þeim sem eldri eru fjölgað mjög og þá sérstaklega í hópi 65 til 69 ára. Sá hópur óx um 25,3 prósent frá 2009 til og með 2014. Fólki yfir 85 ára aldri fjölgaði einnig um 18%.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert