Bardagar hófust í gær í bænum Maryinka í Úkraínu, skammt fyrir utan Donetsk, á milli Úkraínumanna og uppreisnarmanna með stuðning Rússa. Eru þetta fyrstu alvarlegu bardagarnir á svæðinu í þrjá mánuði.
Bærinn Maryinka er um 15 kílómetra fyrir utan Donetsk og eru íbúar hans um 10 þúsund. Talsmaður úkraínska forsætisráðherrans staðfesti í gærkvöldi að tveir úkraínskir hermenn höfðu látið lífið og 30 særðust. Talið er að uppreisnarmennirnir hafi verið þeir sem hófu árás. Bardagarnir þróuðust þó ekki út í stærri bardaga eins og óttast var um á tímabili.
Uppreisnarmennirnir fullyrða að úkraínskir hermenn hafi drepið 15 manns, þar af óbreytta borgara. Dmitriy Peskov, fjölmiðlafulltrúi Vladimírs Pútíns, segir Úkraínska herinn bera ábyrgð á bardaganum. „Við fylgjumst vel með þessu frá Moskvu og við erum vonsvikin yfir þessum ögrandi aðgerðum úkraínska hersins. Þeirra aðgerðir kalla fram þessi viðbrögð,“ segir Peskov.