Fjórir manns létu lífið þegar bílsprengja sprakk í hringtorgi, rétt fyrir utan sænsku borgina Gautaborg, í gær. Fólkið var allt í bílnum sem sprakk, en á meðal þess var foringi þekkts glæpagengis í borginni. Dóttir hans, sem er á leikskólaaldri, lét einnig lífið.
Lögreglan hefur ekki viljað tjá sig um málið, en talið er að sprengingin tengist með einum eða öðrum hætti átökum glæpagengja í borginni. Nokkrir hafa verið myrtir í átökum undanfarnar vikur.
Vitni segjast hafa heyrt mikinn hvell og að þakið á bílnum hafi tekist á lofti, tíu metra. Þrír karlmenn voru í bílnum og stúlkan, en hún var á leiðinni í veiðiferð með föður sínum.
Hún særðist lífshættulega í sprengingunni og var flutt umsvifalaust á sjúkrahús, en lést í morgun. Karlarnir létust allir samstundis.
Sprengingin átti sér stað suðvestur af Gautaborg um klukkan 17:30 að staðartíma í gær, að því er fram kemur í frétt AFP.