Fjölskylda bresks unglings sem er talinn hafa framið sjálfsmorðsárás í nafni Ríkis íslams í Írak er „algjörlega miður sín“. Talið er að Talha Asmal hafi um helgina orðið yngsti Bretinn til þess að fremja sjálfsmorðsárás en hann sprengdi upp bifreið fulla af sprengjuefnum í Írak á laugardaginn.
Dauði Asmal hefur þó ekki fengist staðfestur af breskum yfirvöldum. Ættingjar halda því þó fram að myndir sem þeim hafa borist af dreng sem kallar sig Abu Yusuf Al Britany sé í raun og veru Asmal.
Ríki íslams lýsti yfir ábyrgð á sjö sjálfmorðsárásum í írösku borginni Bajii á laugardaginn. Þær voru gerðar af Breta, Þjóðverja, Dagestönum, manni frá Kuwait, Palestínumanni og Tyrkja.
Asmal yfirgaf heimili sitt í Dewsbury í West Yorkshire í mars til þess að ganga til liðs við Ríki íslams ásamt vini sínum Hassan Munshi. Hann er einnig sautján ára gamall.
Fjölskylda Asmal hafa lýst honum sem „ástríkum, blíðum, umhyggjusömum og alúðlegum“ samkvæmt frétt Sky News.
„Hann hefur aldrei hugsað illar hugsanir til neins eða sýnt ofbeldisfullar, öfga- eða róttækar skoðanir,“ sögðu þau jafnframt.
Þrátt fyrir að Asmal hafi aldrei sýnt öfga- eða róttækar skoðanir, hafi hann verið notaður af róttækum mönnum á internetinu sem eiga að hafa tælt hann til miðausturlanda.
Án vitundar fjölskyldu sinnar fór Asmal til Íraks í gegnum Tyrkland. Þar heillaðist hann af Ríki íslams sem er að sögn fjölskyldu Asmal „of huglausir til þess að gera skítverkin sjálfir,“ sagði í tilkynningu fjölskyldunnar.
Fjölskyldan segist jafnframt vera náin, dugleg, friðsæl og löghlýðin múslíma fjölskylda í Bretlandi. „Sem fjölskylda viljum við nýta þetta tækifæri til þess að lýsa því yfir að „Ríki íslams“ er ekki Íslam,“ sagði jafnframt.
„Þeir standa ekki á neinn hátt fyrir íslam og múslíma og við erum ekki tilbúin til þess að leyfa hópi villimanna að ræna trúnni okkar.“