Misstu útlim eftir hákarlaárás

Fórnarlömbin misstu útlim eftir árás hákarls.
Fórnarlömbin misstu útlim eftir árás hákarls. mbl.is/Ómar

Tveir unglingar meiddust illa eftir árás hákarls við vinsæla strönd í bænum Oak Island í N-Karólínu í Bandaríkjunum í gær. 14 ára stelpa lenti í árás hákarls við ströndina og 16 ára strákur lenti einnig í árás á svipuðum stað tveimur tímum síðar. Samkvæmt fréttum frá Bandaríkjunum misstu bæði fórnarlömbin útlim. 

Ráðist var á stúlkuna um klukkan fjögur að staðartíma. Karlmaður sem var að synda í grenndinni heyrði öskur og kom til aðstoðar. Flogið var með hana á spítala en hún missti hluta af öðrum handleggnum og gæti einnig misst annan fótinn. Steve Bouser varð vitni að atvikinu og líkti því við martröð. „Ég sá einhvern halda á stelpunni og fólk hópaðist að til að reyna að veita aðstoð.“

Ráðist var á unglingspiltinn um þremur kílómetrum frá staðnum sem ráðist var á stúlkuna og missti hann einnig annan handlegginn. Eftirlitsmenn komu á strandlengjuna þar sem þeir vöruðu fólk við því að fara í sjóinn vegna þess að leit stæði yfir að hákarli.

Ákvörðun verður tekin í dag hvort almenningi verður bannað að fara á ströndina. „Ég vil ekki að allir haldi að þetta séu svæði þar sem fólk þarf stöðugt að óttast hákarla. En í nánustu framtíð verður fólk að vera sérstaklega á verði,“ sagði Betty Wallace, bæjarstjóri Oak Island.

Frétt BBC um málið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert