25 ára breskur karlmaður hefur verið dæmdur í 18 mánaða fangelsi, þar af 12 skilorðsbundna, fyrir að senda annan karlmann í faðernispróf í sinn stað. Þessu greinir Buzzfeed frá.
Barnsmóðir Thomas Kenny var ólétt af öðru barni þeirra þegar hann feðraði barn með annarri konu. Kenny þrýsti á konuna að fara í fóstureyðingu sem hún gerði ekki og í kjölfarið neitaði hann að gangast við barninu.
Meðlagsstofnun Bretlands fór fram á að Kenny færi í DNA próf til að sanna að hann væri ekki faðir barnsins en í stað þess að mæta sjálfur sendi hann tvífara sinn á staðinn.
Í niðurstöðu sinni sagði dómarinn Philip Parker að Kenny hafi verið afar óheiðarlegur. „ Að neita því að þú sért faðir barnsins og senda einhvern til að gefa falskt DNA sýni er gríðarlega alvarleg blanda,“ sagði Parker.
„Ég veit þú ert sagður ástríkur faðir tveggja barna í gegnum langvarandi ástarsamband þitt en þetta tilfelli sýnir að þú varst tilbúinn að afneita eigin barni fyrir fjárhagslegan ávinning. Siðferðislega séð getur þú ekki sokkið dýpra.“
Auk fangelsisvistar var Kenny gert að greiða 1.385 pund í málskostnað og skaðabætur.