Samskipti Bandaríkjamanna og Rússa hafa á undanförnum misserum orðið stirðari og stirðari, sérstaklega vegna aukinna umsvifa Rússa á Krímskaga. Nú hafa Rússar svarað með höggi sem segja má að sé langt undir beltisstað.
Vladimír Markin, formaður rannsóknarnefndar rússnesku ríkisstjórnarinnar hefur nefnilega óskað eftir því að rannsókn fari fram á því hvort tunglending Bandaríkjamanna hafi í raun og veru átt sér stað. Þetta kemur fram í rússneska dagblaðinu Moscow Times. Á meðal þess sem Markin vill að verði rannsakað er það sem hann kallar dularfullt hvarf myndbandsupptaka sem teknar voru við lendinguna og hvarf grjóthnullungs sem sóttur var af tunglinu og fluttur til jarðarinnar.
Telur hann að ný rannsókn geti varpað nýju ljósi á þennan sögulega viðburð.
„Ég er ekki að segja að það sé útilokað að Bandaríkjamenn hafi komist til tunglsins og tekið myndbandsupptökur af því. Hins vegar eru þessar upptökur og þessir grjóthnullungar mikilvægar vísindalegar og menningarlegar gersemar og það er undarlegt að þær hafi horfið sí svona,“ segir Markin í Moscow Times.