Grikkir eru skrefi nær bankahruni eftir að upp úr slitnaði á fundi fjármálaráðherra evruríkjanna í kvöld. Innistæður upp á meira en tvo milljarða evra hafa verið teknar út úr grískum bönkum síðastliðna viku, þar af milljarður í gær. Angela Merkel, kanslari Þýskalands, Francois Hollande Frakklandsforseti og gríski forsætisráðherrann Alexis Tsipras hafa gert samkomulag um að halda neyðarfund innan Evrópusambandsins á mánudaginn, en búist er við að það verði lokatilraunin til að koma í veg fyrir gjaldþrot gríska ríkisins.
Fulltrúar evrópska seðlabankans hafa hins vegar viðrað efasemdir um hvort grískir bankar muni almennt hafa næga burði til að opna á mánudaginn. Þúsundir Evrópusinnaðra mótmælenda söfnuðust saman fyrir utan þinghúsið í Aþenu í kvöld og mótmæltu stefnu vinstristjórnarinnar í landinu sem þeir saka um að ljúga að landsmönnum og skilja þjóðina eftir í rjúkandi rúst.
Christine Lagarde, framkvæmdastjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, sagði í morgun að Grikkir myndu ekki fá neinn frest til að greiða afborgun af 1,6 milljarða evra láni frá sjóðnum. Grísk stjórnvöld verða að greiða af láninu fyrir 30. júní næstkomandi.