Evran mun ekki falla ef Grikkir ákveða að yfirgefa evrusvæðið. Þetta segir Jens Weidmann, aðalbankastjóri Bundesbank, þýska seðlabankans.
Í samtali við franska blaðið Les Echos í dag sagði Weidmann að áframhaldandi tilvist evrunnar væri ekki háð því hver þróunin yrði í Grikklandi. Hann viðurkenndi þó að það gæti haft ýmis smitáhrif í för með sér ef Grikkir gæfu evruna upp á bátinn.
Weidmann nefndi einnig að myntsamstarfið gæti, og myndi, taka breytingum ef einstök ríki risu ekki undir ábyrgð sinni.
Seðlabanki Grikklands varaði í gær því að ríkið gæti verið á „sársaukafullri leið“ til greiðslufalls. Í kjölfarið gæti ríkið sagt skilið við evruna og jafnvel Evrópusambandið.
Stjórnvöld í Grikklandi hafa ekki enn náð samkomulagi við lánardrottna sína, Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, Evrópska seðlabankann og framkvæmdastjórn Evrópusambandsins. Viðræðurnar eru komnar í hnút.
Michel Sapin, fjármálaráðherra Frakklands, sagði í gær að ef Grikkir færu úr Evrópusambandinu við núverandi aðstæður, eins og Seðlabanki Grikklands hafði gefið í skyn að gæti gerst, þá yrðu afleiðingarnar skelfilegar, ekki einungis fyrir þá heldur alla Evrópu.
Hann sagði að nú væri það komið undir grískum stjórnvöldum að leggja fram raunhæft tilboð.