Stjórn Seðlabanka Evrópu hefur samþykkt að veita auknu fjármagni til grískra banka til að koma í veg fyrir, eða fresta, mögulega yfirvofandi bankahruni í landinu. Ákvörðunin var tekin á neyðarfundi í kjölfar þess að upp úr slitnaði í viðræðum fjármálaráðherra evruríkjanna í Lúxemborg í gærkvöldi, en óttast var að það yrði banabiti gríska fjármálakerfisins.
Neyðarfundur hefur verið boðaður meðal leiðtoga ESB-ríkjanna á mánudaginn, þar sem þess verður freistað að forða Grikkjum frá gjaldþroti. Ekki er ljóst hvort innspýtingin frá bankanum í dag á að endast í tiltekinn tíma eða hvort markmiðið sé aðeins að grískir bankar geti haldist opnir meðan neyðarfundurinn fer fram á mánudaginn. Grunur leikur þó á að um hið síðarnefnda sé að ræða, sérstaklega í ljósi þess að seðlabankinn hefur boðað til annars fundar á mánudaginn.
Innistæður upp á meira en þrjá milljarða evra hafa verið teknar út úr grískum bönkum síðastliðna viku, þar af milljarður í fyrradag.
Grikkir hafa tæplega tvær vikur til að komast að samkomulagi við lánardrottna sína, Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, Evrópska seðlabankann og framkvæmdastjórn Evrópusambandsins. Að öðrum kosti munu þeir ekki geta staðið skil á 1,6 milljarða evra afborgun af láni Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem er á gjalddaga 30. júní næstkomandi.