Ríkisstjórn vinni þvert á flokkslínur

Lars Lokke Rasmussen, verðandi forsætisráðherra Danmerkur.
Lars Lokke Rasmussen, verðandi forsætisráðherra Danmerkur. AFP

Lars Løkke Rasmussen, formaður Venstre og forsætisráðherraefni bláu blokkarinnar, var allt annað en sigurreifur þegar hann ávarpaði stuðningsmenn sína eftir þingkosningarnar í gærkvöldi. Hann viðurkenndi fúslega að flokkurinn hefði ekki fengið nægilega góða kosningu.

Bláa blokkin er þó skýr sigurvegari kosninganna en hún fékk níutíu þingmenn kjörna gegn 85 þingmönnum rauðu blokkarinnar. Flestum að óvörum er Danski þjóðarflokkurinn orðinn annar stærsti flokkur Danmerkur með 37 þingmenn. Venstre, flokkur Rasmussen, verðandi forsætisráðherra, missti á sama tíma fylgi og þingmönnum hans fækkaði um 13 niður í 34.

„Komandi dagar munu ráða úrslitum um það hvort það verði mögulegt að mynda samsteypustjórn sem mun leiða Danmörku á réttu brautina,“ sagði Rasmussen við stuðningsmenn sína í gærkvöldi.

Hann sagði þó ljóst að Danir vildu nýja ríkisstjórn. Það myndi hjálpa Venstre í komandi stjórnarmyndunarviðræðum. Hann hefði engan sérstakan áhuga á því að verða forsætisráðherra, heldur væri aðalatriðið að leiða Danmörku í rétta átt.

Hann nefndi einnig að mikilvægt væri að stjórnmálaflokkar ynnu náið saman, þvert á flokkslínur. Erfitt verkefni væri fyrir höndum. „Það kallar á samvinnu og ég er ánægður að forsætisráðherrann skuli bjóða áframhaldandi samvinnu með flokki sínum. Þörfin er til staðar,“ sagði Rasmussen.

Í því sambandi hrósaði hann Helle Thorning-Schmidt, fráfarandi forsætisráðherra, og sagði að hún hefði á seinasta kjörtímabili verið dugleg að starfa með stjórnarandstöðuflokkunum.

Thorning-Schmidt lýsti því yfir í gærkvöldi að hún myndi hætta sem formaður Jafnaðarmannaflokksins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert