Uppgangur þjóðernishyggju áhyggjuefni

Kristian Thulesen Dahl, leiðtogi Danska þjóðarflokksins.
Kristian Thulesen Dahl, leiðtogi Danska þjóðarflokksins. AFP

Eiríkur Bergmann Einarsson, prófessor í stjórnmálafræði, segir að Danska þjóðarflokknum hafi tekist að breyta stjórnmálunum í Danmörku þannig að umræðan hverfist nú utan um þeirra málefni. Stóru flokkarnir hafi hætt að mæta málflutningi flokksins með kröftugri andstöðu, heldur tekið málflutninginn bókstaflega upp að stórum hluta til.

Fylgisaukning Danska þjóðarflokksins í þingkosningunum seinasta fimmtudag hefur vakið mikla athygli, en flokkurinn tryggði sér sitt mesta fylgi í tuttugu ára sögu flokksins og varð þar með stærsti flokkur hinnar bláu hægrifylkingar, sem fór með sigur af hólmi í kosningunum.

Eiríkur segir í samtali við mbl.is að niðurstaða dönsku þingkosninganna sé mjög afgerandi, þó svo að hún sé sumpart mótsagnakennd. „Hún staðfestir þróun sem hefur verið í dönskum stjórnmálum í yfir nokkra áratugi, þar sem þau hafa verið að fikra sig inn í að hvíla mjög skýrt á þjóðernishugmyndum, andstöðu við innflytjendur og áherslu á menningarlega einsleitni.

Þetta er þróun sem hefur verið í gangi í þrjátíu ár en það hefur herst á henni undanfarin fimmtán til tuttugu ár og er kannski að skila sér að lokum núna með mjög afgerandi hætti,“ segir hann.

Hefur leitt stjórnmálaumræðuna

Hann segir einnig mjög eftirtekarvert að Danski þjóðarflokkurinn hefur náð að leiða stjórnmálaumræðuna í Danmörku undangengin ár, en fyrir um fimmtán til tuttugu árum þótti boðskapur hans óboðlegur í siðaðri stjórnmálaumræðu, ef svo má segja, og aðrir stjórnmálaflokkar kappkostuðu við að benda á það sem þætti óboðlegt í málflutningi flokksins.

„En þrátt fyrir að flokkurinn hafi lítið breytt sinni orðræðu efnislega, þá hafa stóru flokkarnir hætt að mæta málflutningnum með kröftugri andstöðu, heldur eiginlega tekið bókstaflega upp málflutning Þjóðarflokksins að stórum hluta til. En það skilar sér hins vegar ekki í því að stemma straum fylgisins yfir til þeirra,“ segir hann.

Barnaskapur að hafa ekki áhyggjur

Dönsku kosningarnar marka áframhald á ákveðinni þróun á Norðurlöndunum sem hefur stigmast að miklu leyti undanfarin í ár og felst í upprisu hægriflokka sem eru á móti innflytjendum.

„Þessir flokkar eru komnir í ríkisstjórn í Noregi og Finnlandi og verður Danski þjóðarflokkurinn nú ráðandi afl ríkisstjórnar Danmerkur, hvort sem hann verður formlega innanborðs eða standi fyrir utan og styðji minnihlutastjórn Venstre.“

Hann segir að uppgangur þjóðernishyggju í Evrópu hljóti alltaf að vekja áhyggjur. „Forsagan er þess eðlis að það væri barnaskapur að hafa ekki af því áhyggjur.“

Eiríkur Bergmann Einarsson stjórnmálafræðiprófessor.
Eiríkur Bergmann Einarsson stjórnmálafræðiprófessor. mbl.is/Kristinn Ingvarsson
Lars Lokke Rasmussen, leiðtogi Venstre verðandi forsætisráðherra Danmerkur.
Lars Lokke Rasmussen, leiðtogi Venstre verðandi forsætisráðherra Danmerkur. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka