Baðst afsökunar á brandara um Obama

Judy Shalom Nir-Mozes er með eigin útvarpsþátt í heimalandinu.
Judy Shalom Nir-Mozes er með eigin útvarpsþátt í heimalandinu. Mynd/Wikipedia

Judy Shalom Nir-Mozes, eiginkona Silvan Shalom innanríkisráðherra Ísrael þurfti að biðjast afsökunar opinberlega í dag eftir misheppnaðan brandara um Barack Obama Bandaríkjaforseta.

Á Twitter-síðu sinni skrifaði hún: „Vitið þið hvað Obama-kaffi er? Svart og veikt (e. weak).

Hún er með 74 þúsund fylgjendur á Twitter og létu viðbrögðin ekki á sér standa. Seinna sama dag baðst hún afsökunar. „Ég vil afsaka brandarann, þetta var heimskulegur brandari sem ég heyrði einhvers staðar.“ Síðan bætti hún við: „Forseti, ég átti ekki að skrifa þennan brandara, hann var afar óviðeigandi. Ég kann vel við alla, sama hvaða kynþætti þeir eru af.“

Shalom Nir-Mozes er fræg í heimalandinu. Hún er af hinni ríku Mozes-ætt sem á meðal annars stærsta dagblað landsins. Hún er með eigin vikulegan útvarpsþátt og er tíður gestur í sjónvarpsþáttum í landinu. Á Twitter er hún afar virk og hikar ekki við að gagnrýna vinstrimenn í landinu. 

Hún hefur áður hlotið mikla gagnrýni og þurfti hún til að mynda að segja af sér sem fulltrúi Ísraels í stjórn barnanefndar Sameinuðu þjóðanna. Ástæðan var að hún hafði birt ummæli á Twitter og Facebook þar sem hún sagði palestínsk börn vera alin upp við hatur á Ísrael og að það sé í erfðaefni krakkanna að hata ísraelsku þjóðina.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert