Einn lést og níu slösuðust þegar árásarmenn hófu skothríð í barnaafmæli í Detroit í Bandaríkjunum í nótt. Skotið var af vélbyssum inn í mannfjöldann, en afmælið fór fram á körfuboltavelli.
Maðurinn sem lést var tvítugur en alls særðust þrjár konur og sex karlar í árásinni. Einn er enn í lífshættu. Engin börn slösuðust í árásinni, en hinir slösuðu eru á aldrinum 21 til 46 ára.
Talið er að 400 til 500 manns hafi verið viðstaddir þegar árásin átti sér stað en enginn hefur enn verið handtekinn. Engar vísbendingar hafa borist frá sjónarvottum sem eru tregir til samstarfs. Þetta er haft eftir aðstoðarlögreglustjóranum í Detroit á vef CNN fréttastofunnar.
„Það eru börn þarna úti. Ég er öskurreiður. Það eru engar réttlætingar til fyrir því að fólk er ekki að tala,“ sagði hann. „Mannið ykkur upp og segið okkur hvað er í gangi.“
Hann segir að lögreglan leiti nú að eiganda rauðs bíls sem fannst skammt frá körfuboltavellinum en annars sé málið í rannsókn.