Þurfa ekki á AGS að halda

Frá mótmælum í Aþenu, höfuðborg Grikklands.
Frá mótmælum í Aþenu, höfuðborg Grikklands. AFP

Nikos Pappas, utanríkisráðherra Grikklands, segir að Grikkir vilji ekki frekari hjálp frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. „Ég er einn af þeim sem telja að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn ætti ekki að starfa í Evrópu. Ég vona að við finnum lausn án aðkomu sjóðsins,“ sagði hann í samtali við gríska dagblaðið Ethnos í dag.

Pappas er náinn samstarfsfélagi Alexis Tspiras, forsætisráðherra Grikklands.

Pappas sagði að Evrópa hefði „enga þörf“ fyrir sjóðinn og gæti spjarað sig vel án hans og fjármuna hans.

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn kom Grikkjum fyrst til hjálpar í lok árs 2009 þegar ríkið gat ekki lengur fengið lán á alþjóðlegum fjármálamörkuðum.

Viðræður grískra stjórnvalda við lánardrottna sína, þar á meðal Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, eru komnar í hnút og er engin lausn í sjónmáli. Ef ekkert samkomulag næst munu Grikkir ekki geta staðið skil á 1,6 milljarða evra afborgun af láni Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem er á gjalddaga 30. júní næstkomandi.

Pappas sagði í viðtalinu að gera þyrfti samkomulag til lengri tíma til þess að Grikkir geti endurheimt traust sitt á alþjóðlegum mörkuðum. „Það ætti ekki að gilda til skamms tíma því þá myndi það aðeins leiða til aukinnar óvissu,“ sagði hann.

Tsipras mun hitta leiðtoga evruríkjanna á fundi í Brussel á morgun, mánudag, þar sem málefni Grikklands verður eina málið á dagskrá.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert