Bæði Ísraelsmenn og Palestínumenn gætu hafa framið stríðsglæpi í átökunum á Gasaströndinni í fyrra, að mati mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna. Bæði ísraelsk stjórnvöld og forsvarsmenn Hamas-samtakanna hafna niðurstöðum skýrslu ráðsins.
Átökin stóðu yfir í fimmtíu daga frá júlí fram í ágúst í fyrra áður en bundinn var endi á þau með vopnahléi. Alls lést 2.251 Palestínumaður, þar af 1.462 óbreyttir borgarar, í átökunum samkvæmt skýrslunni og 67 ísraelskir hermenn og sex óbreyttir borgarar. Ísraelsmenn héldu því fram að þeir hefðu ráðist á Gasa til að koma í veg fyrir að eldflaugum væri skotið þaðan og loka göngum sem herskáir Palestínumenn notuðu til að smygla sér yfir landamæri.
Í skýrslu SÞ segir að sterkar vísbendingar séu um að árásir Ísraelsmanna hafi ekki verið í samræmi við tilefnið og þær teldust því til stríðsglæpa. Ísraelsmenn hafi gert yfir 6.000 loftárásir á Gasa og margar sprengjur hafi hæft íbúðarhús og lagt fjölda heimila og innviða Palestínumanna í rúst.
Að sama skapi telja skýrsluhöfundar að eldflaugar og sprengjukúlur sem herskáir Palestínumenn skutu í átt að Ísrael og morð á grunuðum samverkamönnum Ísraela geti talist stríðsglæpir. Þá hafi ýmsir vopnaðir hópar gefið út yfirlýsingar um að þeir myndu ráðast á óbreytta borgara.
Hvetja skýrsluhöfundar Ísraela til að bæta sig í því að koma lögum yfir þá sem brjóti af sér og segja palestínsk yfirvöld hafa ítrekað látið undir höfuð leggjast að tryggja að glæpamönnum væri komið í hendur réttvísinnar.
Benjamín Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels, sagði í dag að Ísraelar hefðu ekki framið stríðsglæpi. Ríkisstjórn hans neitaði að aðstoða skýrsluhöfunda SÞ en hún telur að rannsóknin eigi sér pólitískar hvatir og rannsakendur þeirra séu hlutdrægir.
„Ísrael ver sig gegn hryðjuverkasamtökum sem kalla eftir eyðingu þess og sem fremja sjálf stríðsglæpi,“ sagði Netanyahu um Hamas-samtökin sem ráða ríkjum á Gasa.
Ghazi Hamad, einn leiðtoga Hamas, hafnar einnig niðurstöðum skýrslunnar og segir að eldflaugar og sprengjukúlur liðsmanna sinna hafi beint að ísraelskum herstöðvum en ekki óbreyttum borgurum.
Á meðal hinna látnu var 551 palestínskt barn og þúsundir barna voru á meðal 11.231 Palestínumanns sem særðist í aðgerðum Ísraela. Þá særðust allt að 1.600 manns í Ísrael af völdum eldflauga og sprengjukúlna sem Palestínumenn skutu.