Hannes Hólmsteinn Gissurarson, prófessor, segir það ósanngjarnt af grískum yfirvöldum að ætlast til að evrópskir skattgreiðendur komi illa reknum grískum efnahag til bjargar. mbl.is ræddi við nokkra fræðimenn um stöðuna sem komin er upp en sumir spá því að landið muni yfirgefa evrusamstarfið.
Þeir Ragnar Árnason, prófessor í hagfræði og Gylfi Magnússon, dósent í viðskiptafræði eru þó á því að samningar takist á endanum þó hin útkoman sé fyllilega möguleg.
Syriza, flokkur Tsipras sem komst til valda fyrr á árinu í krafti mikillar andstöðu við niðurskurðarpólitík ESB, hefur þá horft til íslensku leiðarinnar sem lausnar á skuldavanda þjóðarinnar. Við spurðum því fræðimennina hvort hægt væri að bera aðstæður landanna tveggja saman með þessum hætti.