Hópur embættismanna frá Íran, Írak og Sýrlandi mun í næstu viku koma saman til fundar og ræða ræða frekari aðgerðir gegn vígamönnum samtaka Ríkis íslams. Verður fundurinn haldinn í Bagdad, höfuðborg Íraks.
Fréttaveita AFP hefur eftir ráðgjafa stjórnar Írans í utanríkismálum að tengsl þessara þriggja ríkja, þ.e. Írans, Íraks og Sýrlands, séu sterk og eigi sér langa sögu. Fundur sendinefndanna í næstu viku er sagður koma til með að marka mikilvæga þróun í samskiptum ríkjanna.
AFP fréttaveitan hefur það eftir heimildarmanni úr stjórnkerfi Írans að til standi að ræða hvernig ríkin geti stillt saman strengi sína þegar kemur að því að glíma við vígamenn Ríkis íslams. Verður meðal annars ritað undir sameiginlega yfirlýsingu um aðgerðir gegn hryðjuverkum, ofbeldisverkum og öðrum öfgakenndum aðgerðum.
„Hryðjuverkamenn Ríkis íslams eru virkir í Sýrlandi og Írak og verðum við því að vinna náið saman til þess að brjóta þá á bak aftur,“ hefur ríkisfréttastofa Írans (IRNA) eftir innanríkisráðherra Sýrlands.
Að undanförnu hafa komið upp vísbendingar þess efnis að ráðamenn í Íran hafi heimilað þarlendum hersveitum að taka þátt í hernaðaraðgerðum gegn Ríki íslams innan landamæra Sýrlands og Íraks. Ráðamenn í Íran hafa hins vegar staðfastlega neitað þessu.