„Hvernig gat hún gert þetta?“

Joyce Mitchell kom fyrir dóm í síðustu viku.
Joyce Mitchell kom fyrir dóm í síðustu viku. AFP

Fangelsisstarfsmaðurinn Joyce Mitchell viðurkenndi fyrir eiginmanni sínum að hún hafi farið út í eitthvað sem hún réð ekki við þegar hún aðstoðaði tvo morðingja við að sleppa úr fangelsi í Bandaríkjunum fyrr í mánuðinum. Eiginmaður Joyce Mitchell, Lyle Mitchell, birtist í viðtali við NBC í gærkvöldi.

Lyle Mitchell, lýsti í viðtalinu þegar að eiginkona hans viðurkenndi að hafa aðstoðað fangana Richard Matt og David Sweat við það að flýja fangelsið. Joyce Mitchell á að hafa útvegað föngunum verkfæri til þess að saga í gegnum veggi. Hún hefur þó neitað því að hafa átt í kynferðislegu sambandi við mennina. Í síðustu viku staðfesti saksóknari í málinu á blaðamannafundi að Joyce Mitchell hafi beðið menn­ina um að myrða eig­in­mann sinn. Lyle Mitchell tjáði sig ekki um þær ásaknir í viðtalinu við NBC.

Eiginmaðurinn sagði hins vegar frá því að annar fanginn hafi útvegað konu sinni töflur sem myndu rota hann svo að hún gæti flúið með föngunum. Að sögn yfirvalda hætti Joyce Mitchell við að taka þátt í flóttanum og fór á sjúkrahús í staðinn. „Hún sagði „Ég elska eiginmann minn og ég ætla ekki að særa hann“,“ rifjaði Lyle upp í viðtalinu. „Ég vissi að þetta var meira en ég réð við,“ á Joyce Mitchell einnig að hafa sagt.

Joyce Mitchell hefur verið ákærð fyrir að aðstoða fangana með því að afhenda þeim verkfæri. Joyce og Lyle Mitchell unnu bæði í fangelsinu.

Mennirnir sluppu 6. júní síðastliðinn og hefur lítið sem ekkert spurst til þeirra síðan. Gífurlega mikill mannfjöldi tekur nú þátt í leitinni að mönnunum sem sluppu út í gegnum skolpgöng. 

Að sögn Lyle Mitchell vissi hann ekkert um meintar áætlanir eiginkonu hans. Hann og Joyce Mitchell hafa verið gift í fjórtán ár. Hann fór að gruna að eitthvað undarlegt væri í gangi eftir að lögregla yfirheyrði konu sína nokkrum sinnum. Þá viðurkenndi hún loks meint hlutverk sitt í málinu.

Í viðtalinu segir Lyle Mitchell að eiginkona hans haldi því fram að Matt hafi nokkrum sinnum reynt að kyssa hana. Hún stendur þó við það að ekkert meira hafi gerst á milli þeirra. Lyle Mitchell segist trúa því að eiginkona hans hafi sýnt Matt „örlitla væntumþykju“ en að ekkert kynferðislegt hafi gerst á milli þeirra.

Á hún að hafa svarið á líf sonar sínar að hún hefði aldrei stundað kynlíf með föngunum. Að sögn eiginmannsins var hjónaband hans og Joyce Mitchell „frábært“ þar til hún var ásökuð um að hafa aðstoðað fangana. „Við rífumst aldrei,“ sagði Lyle Mitchell í viðtalinu. „Við erum saman, örugglega 95% tilvika. Við vinnum saman, við yfirgefum aldrei húsið nema saman.“

Hann bætti við að eiginkona hans hafi verið samvinnuþýð við rannsókn málsins.

„Hún hefur sagt þeim allt mögulegt,“ sagði hann. „Hún sagði „Ég er að reyna að gera það rétta. Ég veit að það sem ég gerði var rangt. Ég þarf að gera það rétta“,“ lýsti Lyle Mitchell. Hann bætti við að hann sé ekki búinn að ákveða hvort hann muni bera vitni gegn konu sinni.

Aðspurður hvort hann standi með konunni sinni var Lyle Mitchell ekki viss. „Einmitt núna, veit ég ekki hvað mér finnst. Ég veit það ekki.“

Hann bætti við: „Elska ég hana ennþá? Já. Er ég reiður? Já. Hvernig gat hún gert þetta? Hvernig gat hún gert börnunum okkar þetta?“

Hluta úr viðtalinu má sjá hér að neðan. 

Fyrri frétt­ir mbl.is:

Bað strokufangana um að myrða eiginmanninn

Sauma­kon­an neit­ar sök

Sauma­kon­an út­vegaði verk­fær­in

„Hún hélt að þetta væri ást“

Sáu morðingj­ana í garðinum 

Strokufang­arn­ir gætu hafa fengið aðstoð

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert