Bandarísk stjórnvöld hyggjast ferja þungavopn, þar á meðal skriðdreka og brynvarða bíla, til nokkurra Evrópuríkja.
Ashton Carter, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, tilkynnti í dag að vopnin yrðu flutt til Búlgaríu, Eistlands, Lettlands, Litháens, Póllands og Rómaníu.
Mörg ríki í Evrópu, sérstaklega austarlega í álfunni, eru hrædd um stöðu sína eftir ágang Rússlands í Úkraínu.
Atlantshafsbandalagið hefur jafnframt heitið því að auka varnir sínar í Austur-Evrópu.
Er talið að þetta verði í fyrsta sinn frá lokum kalda stríðsins sem Bandaríkin ferja slík vopn til ríkjanna. Mörg þeirra voru, sem kunnugt er, undir áhrifum Sovétríkjanna á meðan kalda stríðinu stóð.
Rússnesk stjórnvöld hafa fordæmt áformin, að því er segir í frétt breska ríkisútvarpsins.
Carter sagði í heimsókn sinni til Tallins, höfuðborg Eistlands, að næg þungavopn fyrir 150 hermenn yrðu geymd í Eystrasaltsríkjunum og í öðrum ríkjum yrði það öllu meira, eða nóg fyrir um 150 hermenn. Stór hluti af vopunum væri nú þegar í Evrópu.
Hann bætti við að vopnin yrðu á hreyfingu, ef svo má segja, færð á milli staða. Markmiðið væri að þjálfa hersveitirnar betur og gera þær hreyfanlegri. „Þau verða ekki kyrrstæð.“
Talið er að um 250 skriðdrekar verði fluttir til álfunnar.
Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins, sagði í gær að til stæði að auka mjög við mannafla viðbragðssveita bandalagsins. Verður fjöldi hermanna rúmlega tvöfaldaður, en sveitirnar eru sérþjálfaðar til þess að bregðast skjótt við átökum hvar sem er í heiminum og er miðað við að þær séu reiðubúnar til aðgerða með tveggja til fimm daga fyrirvara.
Ákveðið var árið 2014 að setja þessar sveitir á fót en helsta ástæða þess er hernaðaríhlutun Rússa í Úkraínu. Þúsundir hermanna frá aðildarríkjum Atlantshafsbandalagsins skipa viðbragðssveitina sem höfuðstöðvar hefur í Póllandi.