Talsmaður Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sagði í dag að sjóðurinn ætti von á því að gríska ríkið myndi standa skil á 1,5 milljarða evra afborgun af láni sjóðsins fyrir 30. júní næstkomandi.
Allt tal um greiðslufall er „getgátur, vegna þess að við eigum von á því að afborgunin verði greidd 30. júní og það er það sem grísk stjórnvöld hafa opinberlega sagt,“ sagði talsmaðurinn, Gerry Rice, við fjölmiðla í dag.
Hann sagði það heldur ekki rétt að sjóðurinn hefði hafnað með öllu nýjustu aðhaldstillögum Grikkja til lausnar á skuldavanda landsins. Sjóðurinn myndi leitast við að ná málamiðlun milli sín og grískra stjórnvalda.
Hann bætti auk þess við að alþjóðlegu lánardrottnarnir, Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn, Evrópski seðlabankinn og framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, væru „allir á sömu línu“.
Grikkir þurfa að fá næstu útborgun af neyðarlánum frá lánardrottnum sínum til þess að geta greitt Alþjóðagjaldeyrissjóðnum 1,5 milljarða evra afborgun 30. júní. Það geta þeir hins vegar ekki gert nema þeir komist að samkomulagi við lánardrottnana um tillögur til að bæta fjárhagsstöðu gríska ríkisins.
Fjármálaráðherrar evruríkjanna funduðu um málið í dag en fundinum lauk án niðurstöðu. Búist er við að þeir komi aftur saman um helgina.