AGS: Grikkir munu borga

00:00
00:00

Talsmaður Alþjóðagjald­eyr­is­sjóðsins sagði í dag að sjóður­inn ætti von á því að gríska ríkið myndi standa skil á 1,5 millj­arða evra af­borg­un af láni sjóðsins fyr­ir 30. júní næst­kom­andi.

Allt tal um greiðslu­fall er „get­gát­ur, vegna þess að við eig­um von á því að af­borg­un­in verði greidd 30. júní og það er það sem grísk stjórn­völd hafa op­in­ber­lega sagt,“ sagði talsmaður­inn, Gerry Rice, við fjöl­miðla í dag.

Hann sagði það held­ur ekki rétt að sjóður­inn hefði hafnað með öllu nýj­ustu aðhaldstil­lög­um Grikkja til lausn­ar á skulda­vanda lands­ins. Sjóður­inn myndi leit­ast við að ná mála­miðlun milli sín og grískra stjórn­valda.

Hann bætti auk þess við að alþjóðlegu lán­ar­drottn­arn­ir, Alþjóðagjald­eyr­is­sjóður­inn, Evr­ópski seðlabank­inn og fram­kvæmda­stjórn Evr­ópu­sam­bands­ins, væru „all­ir á sömu línu“.

Grikk­ir þurfa að fá næstu út­borg­un af neyðarlán­um frá lán­ar­drottn­um sín­um til þess að geta greitt Alþjóðagjald­eyr­is­sjóðnum 1,5 millj­arða evra af­borg­un 30. júní. Það geta þeir hins veg­ar ekki gert nema þeir kom­ist að sam­komu­lagi við lán­ar­drottn­ana um til­lög­ur til að bæta fjár­hags­stöðu gríska rík­is­ins.

Fjár­málaráðherr­ar evru­ríkj­anna funduðu um málið í dag en fund­in­um lauk án niður­stöðu. Bú­ist er við að þeir komi aft­ur sam­an um helg­ina.

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Erlent »

Fleira áhugavert