Bandaríkin sýna klærnar í Búlgaríu

Bandarískar hersveitir eru nú á heræfingu ásamt liðsmönnum búlgarska hersins á Novo Selo heræfingasvæðinu í Búlgaríu. Meðal þeirra sveita bandaríkjahers sem þátt taka í æfingunni eru hermenn úr landher Bandaríkjanna og skriðdrekaliðssveitir.

Varnarmálaráðherra Bandaríkjanna hefur tilkynnt að stjórnvöld vestanhafs munu á næstunni ferja þungavopn, þar á meðal M1A2 Abrams skriðdreka sem nú tekur þátt í æfingunni í Búlgaríu, og brynvarðar bifreiðar til nokkurra Evrópuríkja.

Verða hergögnin flutt til Búlgaríu, Eistlands, Lettlands, Litháens, Póllands og Rómaníu.

Hefur Atlantshafsbandalagið einnig heitið því að auka varnir sínar í Austur-Evrópu en talið er að um 250 skriðdrekar verði fluttir til Evrópu frá Bandaríkjunum. Er þetta í fyrsta sinn sem Bandaríkjamenn flytja slík vopn til Evrópu frá lokum Kalda stríðsins.

Til að bregðast við því sem Atlantshafsbandalagið lítur á sem árásargjarna hegðun Rússa hefur verið ákveðið að ráðast í töluverðar aðgerðir. Skipuð hefur verið sérstök háhraða viðbragðssveit auk hins svokallaða hraðliðs. Er búist við því að hermönnum í hraðliðinu verði fjölgað frá 13 þúsundum upp í 40 þúsund.

„Þó að við sækjumst ekki eftir köldu stríði, og hvað þá heitu stríði við Rússland, munum við verja bandamenn okkar,“ sagði Ashton B. Carter, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, á fundi ríkja Atlantshafsbandalagsins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert