Ætluðu að sprengja verksmiðjuna

Lögreglumenn fyrir utan verksmiðjuna í dag.
Lögreglumenn fyrir utan verksmiðjuna í dag. AFP

Maður sem er í haldi frönsku lögreglunnar grunaður um að hafa myrt mann og sært nokkra aðra var með engin skilríki á sér. Þá hefur hann neitað að ræða við lögreglumenn. Forseti Frakklands segir að tilgangurinn hafi verið að sprengja verksmiðju í loft upp.

Innanríkisráðherra landsins hefur hins vegar upplýst að maðurinn sem er í haldi lögreglu heiti Yessim Salim.

Hann er grunaður um að vera annar af tveimur sem óku upp að gasverksmiðju í Saint-Quentin-Fallavier, sem er skammt frá Lyon. Þeir eru sagðir hafa veifað íslömskum fána með arabískum texta og eru grunaðir um að hafa höggvið höfuðið af manni og sært aðra. Sprengingar hafa heyrst við Air Products-verksmiðjuna, sem er í bandarískri eigu, en talið er að þarna hafi verið um gashylki að ræða sem mennirnir notuðu til að gera árás.

Hinn árásarmaðurinn er sagður látinn en hann féll í átökum við slökkviliðsmann. 

Hollande Frakklandsforseti hefur tjáð sig um atburðina í dag.
Hollande Frakklandsforseti hefur tjáð sig um atburðina í dag. AFP

Innanríkisráðherra Frakklands, Bernard Cazeneuve, er kominn á svæðið og hann segir að rannsókn sé hafin.

Árásin átti sér stað um klukkan 10 að frönskum tíma (um kl. 8 að íslenskum tíma). Fram kemur í frönskum fjölmiðlum að maður hafi sést aka fram og til baka fyrir framan verksmiðjuna snemma í morgun. 

Þá hefur komið fram, að arabískur texti hafi verið skrifaður á höfuð manns sem árásarmennirnir eru grunaðir um að hafa hálshöggvið, en greint hefur verið frá því að höfuðið hafi verið fest ofan á aðalhlið verksmiðjunnar. 

Talsmenn Air Products segja að allir starfsmenn fyrirtækisins séu óhultir.

Svæðið var girt af.
Svæðið var girt af. AFP

„Þetta er hæsta stig hryðjuverkaógnar,“ skrifaði Alain Juppe, borgarstjóri Bordeaux, á  Twitter. Hann fordæmdi árásina og bætti við að stjórnvöld verði að gert allt sem í þeirra valdi standi til að vernda almenning. 

Francois Hollande, forseti Frakklands, segir að það sé engum vafa undirorpið að mennirnir hafi ætlað að sprengja verksmiðjuna í loft upp. Þetta bæri öll einkenni hryðjuverkaárásar.

Hann sagði ennfremur, að afhöfðað lík hefði fundist og á því hafi verið áletrarnir. Einn sé látinn og tveir hafi særst. Ávarp Frakklandsforseta má sjá hér að neðan.

Hjó höfuð af manni

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert