Alexis Tsipras, forsætisráðherra Grikklands, sagðist í sjónvarpsávarpi til grísku þjóðarinnar í kvöld ætla að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um niðurstöðu viðræðna grískra stjórnvalda við alþjóðlegu lánardrottna sína um skuldavanda landsins. Fer þjóðaratkvæðagreiðslan fram sunnudaginn 5. júlí.
Tsipras sagði að þannig fengi gríska þjóðin að ákveða hvort hún vildi samþykkja kröfur lánardrottnana.
Hann tilkynnti um áformin eftir neyðarfund grísku ríkisstjórnarinnar í kvöld.
Hann nefndi í ávarpinu að tillögur lánardrottnanna brytu í bága við evrópskar reglur og grundvallarrétt til vinnu, jafnréttis og virðingar. Tillögurnar sýndu fram á að tilgangurinn hefði ekki verið að ná samkomulagi sem allir högnuðust á, heldur að niðurlægja heila hjóð.
Grikkir mættu ekki við meiri niðurskurði, eins og lánardrottnarnir vildu.
Lánardrottnarnir hafa boðist til að veita Grikkjum frekari neyðarlán gegn því að grísk stjórnvöld komi á ýmsum umbótum í landinu, svo sem niðurskurðaraðgerðum og breytingum á virðisaukaskattskerfinu og eftirlaunaaldri.
Viðræður Grikkja við fulltrúa lánardrottnana halda áfram á morgun, laugardag, en vonast er til að samkomulag náist um helgina.
Tsipras sakaði fyrr í dag lánardrottnana, Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, Evrópska seðlabankann og framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, um kúgunartilburði gagnvart Grikkjum.
„Þau grunngildi sem eru viðhöfð í Evrópu byggjast ekki á kúgunum og afarkostum. Á umbrotatímum sem þessum hefur enginn rétt á því að stefna þessum gildum í hættu,“ sagði hann við fjölmiðla í dag.
Grikkir þurfa að standa skil á 1,5 milljarða evra afborgun af láni Alþjóðagjaldeyrissjóðsins 30. júní næstkomandi.