Bankaáhlaup í Grikklandi

Óbreytt­ir Grikkir biðu í löng­um röðum í dag við hraðbanka.
Óbreytt­ir Grikkir biðu í löng­um röðum í dag við hraðbanka. AFP

Fljót­lega eft­ir að fregn­ir bár­ust af því að Al­ex­is Tsipras, for­sæt­is­ráðherra Grikk­lands, hefði boðað til þjóðar­at­kvæðagreiðslu um þær aðhaldstil­lög­ur sem lán­ar­drottn­ar Grikkja setja sem skil­yrði fyr­ir frek­ari aðstoð, þá tóku biðraðir að mynd­ast við hraðbanka um allt land.

Grikk­ir ótt­ast nú að gjald­eyr­is­höft verði sett á í land­inu, með til­heyr­andi óvissu, og flýttu sér því í næsta banka og tóku pen­inga sína út.

Ótt­ast er að grískri bank­ar neyðist til að loka fyr­ir fullt og allt.

Sum­ir hraðbank­ar í næst­stærstu borg lands­ins, Thessaloniki, reynd­ust tóm­ir en á meðan biðu um fimm­tíu manns í röð fyr­ir fram­an Lands­banka Grikk­lands.

„Ég á versl­un. Ég fór í bank­ann til að taka út eins mikla fjár­muni og ég þarf til þess að halda versl­un­inni gang­andi í næstu viku,“ sagði hin 42 ára gamla Maria Kalpakidou í sam­tali við AFP.

„Ef við náum ekki sam­komu­lagi fyr­ir 4. júlí, þá mun gríska banka­kerfið hrynja,“ bætti hún við.

Gríska þingið mun í kvöld greiða at­kvæði um hvort halda eigi þjóðar­at­kvæðagreiðslu um aðhaldstil­lög­ur lán­ar­drottn­anna. At­kvæðagreiðslan á að fara fram 5. júlí næst­kom­andi.

„Það er mik­ill ótti um hvað gæti gerst,“ sagði hinn 52 ára gamli Ni­kos. „Ég kaus Syr­iza í sein­ustu kosn­ing­um. En við kus­um flokk­inn til að taka ákv­arðanir, ekki til að færa ábyrgðina yfir á okk­ar herðar, grísks al­menn­ings.“

Sofia Mak­ridou, banka­starfsmaður, sagði við AFP að það væri mik­il óvissa og óör­yggi um hvað myndi ger­ast næst.

Í miðborg Aþenu sá fréttamaður AFP um þrjá til tíu manns í biðröðum fyr­ir fram­an tíu hraðbanka.

Und­an­farna mánuði hafa fjár­fest­ar flúið með tugi millj­arða evra frá Grikklandi. Útflæði inn­stæðna í grísk­um bönk­um hef­ur verið gríðarlegt, sér í lagi und­an­farn­ar vik­ur.

Fjár­málaráðherr­ar evru­ríkj­anna höfnuðu í dag ósk grískra stjórn­valda um að fá fram­leng­ingu til eins mánaðar á neyðarlána­samn­inga Grikkja við lán­ar­drottn­ana, þannig að hægt verði að halda þjóðar­at­kvæðagreiðsluna 5. júlí.

Björg­un­ar­áætl­un Grikkja renn­ur út 30. júní næst­kom­andi, en Grikk­ir þurfa þá að standa skil á 1,5 millj­arða evra af­borg­un af láni Alþjóðagjald­eyr­is­sjóðsins.

AFP
AFP
mbl.is
Fleira áhugavert

Erlent »

Fleira áhugavert