Bankaáhlaup í Grikklandi

Óbreytt­ir Grikkir biðu í löng­um röðum í dag við hraðbanka.
Óbreytt­ir Grikkir biðu í löng­um röðum í dag við hraðbanka. AFP

Fljótlega eftir að fregnir bárust af því að Alexis Tsipras, forsætisráðherra Grikklands, hefði boðað til þjóðaratkvæðagreiðslu um þær aðhaldstillögur sem lánardrottnar Grikkja setja sem skilyrði fyrir frekari aðstoð, þá tóku biðraðir að myndast við hraðbanka um allt land.

Grikkir óttast nú að gjaldeyrishöft verði sett á í landinu, með tilheyrandi óvissu, og flýttu sér því í næsta banka og tóku peninga sína út.

Ótt­ast er að grískri bankar neyðist til að loka fyr­ir fullt og allt.

Sumir hraðbankar í næststærstu borg landsins, Thessaloniki, reyndust tómir en á meðan biðu um fimmtíu manns í röð fyrir framan Landsbanka Grikklands.

„Ég á verslun. Ég fór í bankann til að taka út eins mikla fjármuni og ég þarf til þess að halda versluninni gangandi í næstu viku,“ sagði hin 42 ára gamla Maria Kalpakidou í samtali við AFP.

„Ef við náum ekki samkomulagi fyrir 4. júlí, þá mun gríska bankakerfið hrynja,“ bætti hún við.

Gríska þingið mun í kvöld greiða atkvæði um hvort halda eigi þjóðaratkvæðagreiðslu um aðhaldstillögur lánardrottnanna. Atkvæðagreiðslan á að fara fram 5. júlí næstkomandi.

„Það er mikill ótti um hvað gæti gerst,“ sagði hinn 52 ára gamli Nikos. „Ég kaus Syriza í seinustu kosningum. En við kusum flokkinn til að taka ákvarðanir, ekki til að færa ábyrgðina yfir á okkar herðar, grísks almennings.“

Sofia Makridou, bankastarfsmaður, sagði við AFP að það væri mikil óvissa og óöryggi um hvað myndi gerast næst.

Í miðborg Aþenu sá fréttamaður AFP um þrjá til tíu manns í biðröðum fyrir framan tíu hraðbanka.

Undanfarna mánuði hafa fjárfestar flúið með tugi milljarða evra frá Grikklandi. Útflæði innstæðna í grískum bönkum hefur verið gríðarlegt, sér í lagi undanfarnar vikur.

Fjármálaráðherrar evruríkjanna höfnuðu í dag ósk grískra stjórnvalda um að fá framlengingu til eins mánaðar á neyðarlánasamninga Grikkja við lánardrottnana, þannig að hægt verði að halda þjóðaratkvæðagreiðsluna 5. júlí.

Björgunaráætlun Grikkja rennur út 30. júní næstkomandi, en Grikkir þurfa þá að standa skil á 1,5 milljarða evra afborgun af láni Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

AFP
AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert