Fá ekki framlengingu á neyðarlánum

Fjármálaráðherrar evruríkjanna samþykktu á fundi sínum í dag að framlengja ekki neyðarlánasamninga Grikkja við lánardrottna ríkisins.

Grísk stjórnvöld höfðu óskað eftir því að fá framlengingu þannig að hægt yrði að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um þær aðhaldsaðgerðir sem lánardrottnarnir setja sem skilyrði fyrir frekari aðstoð. Atkvæðagreiðslan á að fara fram 5. júlí næstkomandi, en núverandi „björgunarpakki“ Grikkja rennur út á þriðjudagskvöld.

Jeroen Dijsselbloem, fjármálaráðherra Hollands, sagði að loknum fundi fjármálaráðherranna í dag að þeir myndu nú hittast aftur - án Grikkja - og ræða þá „afleiðingarnar“.

Eins og kunnugt er boðaði Alexis Tsipras, forsætisráðherra Grikklands, til þjóðaratkvæðagreiðslu í sjónvarpsávarpi í gærkvöldi. Dijsselbloem, sem er jafnframt leiðtogi evruhópsins, sagði að með þessu óvænta útspili hefðu samningaviðræðurnar við Grikki farið út um þúfur.

Grikkir þurfa að standa skil á 1,5 milljarða evra afborgun af láni Alþjóðagjaldeyrissjóðsins 30. júní næstkomandi. Lánardrottnar þeirra hafa boðist til að veita þeim frekari lán gegn því að grísk stjórnvöld kæmu á ýmsum umbótum í landinu. Grikkir hafa hins vegar hafnað öllum slíkum tillögum.

Fjármálaráðherrarnir munu aftur funda í kvöld og þá án Yanis Varoufakis, fjármálaráðherra Grikklands. Munu þeir þá ræða mögulegt greiðslufall Grikkja, að því er segir í frétt AFP.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert