Manuel Valls, forsætisráðherra Frakklands, segir að „raunveruleg hætta“ sé á því að Grikkir yfirgefi evrusvæðið ef gríska þjóðin hafnar aðhaldstillögum lánardrottna sinna í þjóðaratkvæðagreiðslu 5. júlí.
Í samtali við fréttastofu iTELE í morgun hvatti Valls grísk stjórnvöld til að „koma aftur að samningsborðinu“ en samningaviðræður Grikkja við lánardrottna sína hafa farið út um þúfur.
Hefur ákvörðun Alexis Tsipras, forsætisráðherra Grikklands, um að senda aðhaldstillögur sem lánardrottnarnir setja sem skilyrði fyrir frekari lánveitingum í þjóðaratkvæði valdið uppnámi í Evrópu.
Valls neitaði þó að gagnrýna ákvörðun grísku ríkisstjórnarinnar og sagði: „Þegar þú biður þjóðina um að ákveða, til að nota sinn lýðræðislega rétt, þá ætti það að vera hafið yfir gagnrýni.“
„En það er augljóst að ef svarið þjóðarinnar verður neikvætt, þá verður raunveruleg hætta á því að Grikkir yfirgefi evursvæðið,“ bætti Valls við.
Hann sagðist enn trúa því staðfastlega að Grikkir gætu komist að samkomulagi við lánardrottnana. Enn væri möguleiki fyrir hendi.
Hans Jorg Schelling, fjármálaráðherra Austurríkis, sagði í samtali við blaðið Die Presse í morgun að brottför Grikkja af evrusvæðinu væri nú „nánast óumflýjanleg“. Hann bætti við að grísk stjórnvöld bæru ein ábyrgð á því að samningaviðræðurnar hefðu farið út um þúfur.