Merkel „heldur á lyklinum“

Yanis Varoufakis, fjármálaráðherra Grikklands.
Yanis Varoufakis, fjármálaráðherra Grikklands. AFP

Yanis Varoufakis, fjármálaráðherra Grikklands, segir að Angela Merkel Þýskalandskanslari „haldi á lyklinum“ að því að leysa skuldavanda Grikklands.

„Leiðtogar Evrópu verða að grípa til aðgerða. Og hún, sem fulltrúi mikilvægustu þjóðarinnar, heldur á lyklinum. Ég vona að hún noti hann,“ sagði fjármálaráðherrann í samtali við þýska dagblaðið Bild í dag.

Hann sagði jafnframt að grísk stjórnvöld væru tilbúin til að hlusta á ný tilboð frá alþjóðlegu lánardrottnum sínum, áður en þjóðaratkvæðagreiðsla um núverandi aðhaldstillögur, sem lánardrottnarnir setja sem skilyrði fyrir frekari lánveitingum, fer fram.

Hann sagði að grísk stjórnvöld hefðu ákveðið að boða til atkvæðagreiðslunnar þar sem þau gátu ekki sætt sig við þá skilmála sem lánardrottnarnir settu þeim. „Við gátum ekki samþykkt tilboðið, en við gátum samt ekki bara hafnað því, í ljósi þess hversu mikilvægt málið er fyrir framtíð Grikklands,“ sagði hann.

„Þannig að við ákváðum að leita til borgaranna, útskýra neikvæða afstöðu okkar til tilboðsins, en leyfa þeim að ráða.“

Hann bætti við að ef lánardrottnarnir - Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn, framkvæmdastjórn Evrópusambandsins og Evrópski seðlabankinn - legðu fram tilboð sem væri „mun betra“ en fyrri tilboð, þá myndu grísk stjórnvöld breyta afstöðu sinni og hvetja þjóðina til þess að samþykkja það.

Gríska þingið samþykkti seint í gærkvöldi að boða til þjóðaratkvæðagreiðslu um aðhaldstillögur lánardrottnanna. Fer atkvæðagreiðslan fram næsta sunnudag, 5. júlí.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert