Taki með sér nógu mikið reiðufé

Langar biðraðir tóku að myndast við gríska hraðbanka í gær.
Langar biðraðir tóku að myndast við gríska hraðbanka í gær. AFP

Þýska utanríkisráðuneytið hefur mælt með því að Þjóðverjar sem hyggi á ferðalög til Grikklands taki með sér nógu mikið reiðufé til landsins. Langar biðraðir hafa verið við gríska hraðbanka um helgina.

Hafa óþreyjufullir Grikkir beðið í von um að ná út eins miklum peningum og hægt er áður en hraðbankarnir tæmast. Grískir innstæðueigendur hafa tekið út tugi milljarða evra úr bönkum landsins á undanförnum mánuðum.

Óvíst er hvort bankar landsins verða opnir á morgun, mánudag. Er jafnframt óttast að sett verði á gjaldeyrishöft í landinu, sem þýðir að ákveðið hámark verður sett á þær upphæðir sem hægt er að taka út úr bönkum landsins.

Grikkland er vinsæll áfangastaður á meðal þýskra ferðamanna. Í tilkynningu frá þýska utanríkisráðuneytinu voru ferðamenn í Grikklandi hvattir til að fylgjast afar vel með stöðu mála þar í landi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka