154 ranglega dæmdir til dauða

Þeim hefur farið fækkandi sem styðja dauðarefsinguna, en ríki hafa …
Þeim hefur farið fækkandi sem styðja dauðarefsinguna, en ríki hafa átt í stökustu vandræðum með framkvæmdina eftir að birgjar hættu að vilja selja lyf til aftöku. AFP

Hinn 1. janúar 2015 voru 3.019 fangar á dauðadeildum í bandarískum fangelsum, samanborið við 420 árið 1976, þegar dauðarefsingin var tekin upp á ný í landinu. Fjöldinn var mestur í ársbyrjun 2000, þegar fangar á dauðadeild töldu 3.593.

Nítján ríki Bandaríkjanna heimila ekki dauðarefsingar; Alaska, Connecticut, Hawaii, Illinois, Iowa, Maine, Maryland, Massachusetts, Michigan, Minnesota, Nebraska, New Jersey, New Mexico, New York, North Dakota, Rhode Island, Vermont, West Virginia, Wisconsin, og Washington DC.

Af því 31 ríki þar sem dauðarefsingin er enn á bókunum hafa tíu fallið frá henni án þess að ráðast í lagabreytingar, sem gerir það að verkum að í raun er dauðarefsingunni ekki beitt í 29 ríkjum af 50.

Frá 1976 hafa 1.411 fangar verið teknir af lífi, þar af 17 á þessu ári. Aftökum hefur farið fækkandi síðustu 20 ár. Metfjöldi fanga, 98 alls, var tekinn af lífi árið 1999, 52 árið 2009, 46 árið 2010, 43 árin 2011 og 2012, 39 árið 2013 og 35 í fyrra.

Af þessum 35 aftökum sem fóru fram í fyrra áttu 80% sér stað í Texas, Missouri og Flórída.

Bandaríski herinn hefur ekki tekið fanga af lífi í fimm áratugi og á fjórum áratugum hafa aðeins þrír alríkisfangar verið teknir af lífi. Síðasta aftakan sem fór fram „á vegum“ alríkisins átti sér stað 2003, en á dögunum var Dzhokhar Tsarnaev, annar bræðranna sem stóðu að sprengjuárásinni í Boston-maraþoninu, dæmdur til dauða fyrir alríkisdómstól.

Alls hafa 154 fangar á dauðadeildum 26 ríkja verið sýknaðir og frelsaðir á seinni stigum máls. Flórída er það ríki þar sem flest mistök af þessu tagi hafa verið gerð; þar hafa 25 fangar á dauðadeild fengið dómi sínum hnekkt, 20 í Illinois og 13 í Texas.

Dauðarefsingin hefur aldrei notið jafn lítils stuðnings og nú, en 56% bandarísku þjóðarinnar segjast henni fylgjandi. 38% eru á móti dauðarefsingunni. Árið 1996 voru 78% þjóðarinnar fylgjandi refsingarmátanum og 62% árið 2011.

Mörg ríki hafa lent í mestu vandræðum með framkvæmd dauðarefsingarinnar eftir að birgjar hófu að neita að selja lyf til banvænnar innspýtingar. Aftökuaðferðin hefur verið harðlega gagnrýnd eftir að ríkin fóru að grípa til þess að nota önnur efni, sem grunur leikur á að hafi valdið því að aftökur fóru úrskeðis í Arizona, Ohio og Oklahoma.

Í stað þess að láta af refsingarmátanum hafa sum ríki gripið til þess ráðs að endurvekja gamlar aðferðir, s.s. skotsveitir, rafmagnsstólinn og gasklefann.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert