„Ég get ekki orðið fátækari en ég er“

Biðröð í hraðbanka í Aþenu höfuðborg Grikklands í dag.
Biðröð í hraðbanka í Aþenu höfuðborg Grikklands í dag. AFP

„Fólk óttast óvissuna. En það ætti ekki að hugsa bara um eigin vasa heldur landið í heild,“ er haft eftir hinum 77 ára gamla Yannis Ioannidis í frétt bandaríska dagblaðsins USA Today þar sem hann beið óþolinmóður í gær í biðröð við hraðbanka í Aþenu höfuðborg Grikklands til þess að taka úr eftirlaunin sín fyrir júlímánuð.

Grikkland rambar á barmi greiðsluþrots þar sem ekki hefur tekist að landa samkomulagi á milli grískra stjórnvalda og alþjóðlegra lánadrottna landsins; Evrópusambandsins, Evrópska seðlabankans og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Háir gjalddagar eru framundan sem gríska ríkið hefur ekki fjármagn til þess að greiða án frekari lánveitinga lánadrottna sinna. En þeir setja sem skilyrði fyrir lánafyrirgreiðslum að gripið verði til róttækra umbóta í Grikklandi sem stjórnvöld í landinu eru ekki reiðubúin að samþykkja. Fjármagnshöft verða sett í Grikklandi og þjóðaratkvæði verður haldið 5. júlí um kröfur lánadrottnanna.

„Við erum þegar í greiðsluþroti“

Fram kemur í frétt USA Today að margir Grikkir fagni yfirvofandi greiðsluþroti Grikklands. Rifjað er upp að frá því að efnahagserfiðleikar Grikkja hafi hafist fyrir alvöru árið 2009 hafi þjóðin þurft að þola hækkandi skatta og mikinn niðurskurð í skiptum fyrir lánafyrirgreiðslur. Aðhaldsaðgerðirnar hafi keyrt atvinnuleydi upp í 25% að meðaltali og 60% á meðal ungs fólks. Hin fimmtuga Vaso Gova segir í samtali við dagblaðið að hún vilji að þessu fari að ljúka.

„Ég er alls ekki hrædd. Hvers vegna ætti ég að vera hrædd? Við erum þegar í greiðsluþroti. Ég get ekki orðið fátækari en ég er,“ segir hún. Þjóðaratkvæðið á sunnudaginn er tækifæri að hennar mati til þess að koma höggi á Angelu Merkel, kanslara Þýskalands, sem hefur krafist þess að Grikkir grípi til frekari aðhaldsaðgerða í skiptum fyrir lánafyrirgreiðslur.

„Loksins getum við sagt já eða nei við þýska hernáminu,“ segir Gova. Framtíð barnanna okkar og barnabarna er í okkar höndum. Ég vil fá sjálfsvirðinguna aftur og frelsi landsins míns sem vill losna við hernámsliðið.“ Fram kemur í fréttinni að aðrir Grikkir sem blaðamaðurinn hafi rætt við hafi verið jafn herskáir.

„Ég á hvort sem er enga peninga í bankanum“

„Gríska þjóðin verður að öskra eitt stórt nei. Við svörum með andstöðu, samstöðu og stolti kúguninni og úrslitakostunum,“ segir læknaneminn og aðgerðasinninn Leonidas Papadopoulos sem er 33 ára gamall. „Ég óttast ekki greiðsluþrot,“ segir hinn tvítugi Alexandros Markonatos. „Ég á hvort sem er enga peninga í bankanum.“

Markonatos segist samt gera sér grein fyrir því að gríska þjóðin eigi eftir að þjást. Hann starfar á kaffihúsi fjölskyldu sinnar í Aþenu. Viðskiptavinirnir eru meðal annars bæði ungt fólk og eftirlaunaþegar sem koma til þess að kaupa kaffi á lækkuðu verði. Hann segir fólk greiða reikningana sína og kaupa í matinn. Síðan verji það nokkrum evrum til þess að kaupa kaffi og ræða við vini sína. „Það er eina afþreyingin sem það hefur efni á.“

AFP
AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert