Ríkisstjórn Grikklands hefur staðfest að bankar þar í landi verði lokaðir alla vikuna, sem liður í aðgerðum til þess að koma í veg fyrir endanlegt hrun í gríska efnahagskerfinu. Ákvörðunin kemur í kjölfar þess að bankaráð Evrópska seðlabankans tilkynnti í gær að neyðarlausafjáraðstoð, sem grísku bankarnir hafa reitt sig á til að halda sér á floti, yrði haldið óbreyttri en ekki aukin.
Í úrskurði ríkisstjórnarinnar kemur fram að „afar brýnt“ sé að vernda fjármálakerfið vegna skorts á lausafé. Alexis Tsipras, forsætisráðherra Grikklands, hafði tilkynnt í gærkvöldi að gjaldeyrishöftum yrði komið á í landinu, en í úrskurðinum kemur fram að úttekt reiðufjár verði takmörkuð við 60 evrur eða um 8.800 krónur á dag á þessu tímabili.
Núverandi björgunaráætlun Grikkja rennur út á þriðjudaginn, en þá þurfa þeir að standa skil á 1,5 milljarða evra afborgun af láni Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Slitnað hefur upp úr samningaviðræðum grískra stjórnvalda við lánardrottnana eftir útspil Tsipras, sem ákvað að boða til þjóðaratkvæðagreiðslu um aðhaldstillögur sem lánardrottnar landsins setja sem skilyrði fyrir frekari neyðarlánum. Í kjölfarið fóru að myndast biðraðir við gríska hraðbanka og hafa margir milljarðar evra hafa verið teknir út úr hraðbönkum og bönkum í landinu á undanförnum vikum. Þykir ljóst að Grikkir muni lenda í greiðslufalli á morgun.
Í tilkynningu frá Tsipras í gær kenndi hann Evrópska seðlabankanum um ófarirnar. Segir hann stofnunina reyna að grafa undan lýðræði í ríkjum Evrópusambandsins. Í ræðu sinni sagði Tsipras einnig að grískir bankar og innistæður fólks væru örugg og hvatti hann fólk til þess að halda ró sinni. Hann tók einnig fram að hann hefði óskað eftir áframhaldandi neyðaraðstoð frá kröfuhöfum.
Jean-Claude Juncker, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, mun síðar í dag koma með tillögu um leið að samkomulagi á milli grískra ráðamanna og alþjóðlega lánardrottna Grikklands um skuldavanda landsins.
Síðustu daga hafa fjármálaráðherrar evruríkjanna verið ákveðnir í að koma saman samkomulagi á milli alþjóðlegra lánardrottna Grikklands og ríkisstjórnar landsins um lausn á skuldavanda þess, en Juncker segir enn vera hægt að ná samkomulagi.