Hann var háskólanemi og naut þess að stunda breikdans í frítíma sínum. Hann hafði nóg að gera, enda tók hann að sér hlutastarf með skóla til að eiga fyrir skólagjöldunum. Seifeddine Rezgui virtist ekki frábrugðinn öðrum ungum mönnum í Túnis, það benti ekkert til þess að hann myndi myrða tæplega fjörtíu manns á ferðamannastað síðastliðinn föstudag.
Rezgui hafði aldrei ferðast til útlanda, en talið er að hann hafi byrjað að aðhyllast öfgafullar trúarskoðanir í mosku í heimabæ sínum. Hann var ekki á lista yfir grunaða hryðjuverkamenn. Hryðjuverkasamtökin Ríki íslams hafa lýst yfir ábyrgð á tilræðinu og vísað til Yacoubis með íslamska heitinu Abu Yahya al Qayruhni.
Rezgui var klæddur eins og ferðamaður, í dökkum stuttbuxum, bol og með hálsfesti. Hann er sagður hafa falið Kalashnikov-hríðskotariffil undir sólhlíf á ströndinni. Hann stóð síðan upp og hóf skothríð í kringum hótelið, sem er talin hafa staðið í um sjö mínútur, áður en öryggissveit skaut hann til bana.
Rezgui var aðeins 23 ára. Vinir og ættingjar hans í borginni Gaafour í norðvesturhluta Túnis, lýsa honum sem löghlýðnum, ungum manni. Frændi hans sagði meðal annars í samtali við AFP-fréttaveituna að hann hefði séð Rezgui í Gaafour aðeins nokkrum dögum fyrir árásina. Þar starfaði hann sem þjónn á kaffihúsi.
„Hann var eðlilegur. Hann kom hingað, vann á kaffihúsinu, hann fór heim, hann fór til að biðja og hann var með strákunum á kaffihúsinu,“ segir frændi hans í samtali við AFP. „Allir í Gaafour eru hissa.“ Yfirvöld í Túnis hafa viðurkennt að ekki hafi verið fylgst sérstaklega með Rezgui. Ekkert benti til þess að hann gæti verið að skipuleggja árás sem þessa.
Annar frændi Rezgui ræðir við AFP. „Á þessum 23 árum gerði hann aldrei neitt ólöglegt. Hann stóð sig vel í skólanum, hann hló, hann heilsaði. Hvernig gekkst hann undir þjálfun? Hvar gekkst hann undir þjálfun? Aðeins Guð veit það. Það er það sem kvelur okkur núna,“ sagði hann í samtali við AFP.
Rezgui hafði dálæti af breikdans og segja þeir sem þekkja hann að ungi maðurinn hafi verið afar hæfileikaríkur. Á myndskeiði sem deilt hefur verið í túnískum fjölmiðlum má sjá ungan mann dansa breik með derhúfu á höfði og er hann sagður vera Rezgui.
Samkvæmt upplýsingum frá innanríkisráðuneyti landsins varð breyting á hegðun unga mannsins í aðdraganda árásarinnar. Hann einangraði sig, varði miklum tíma á internetinu og vildi ekki sýna vinum sínum hvað hann var að skoða.
Engin merki eru um að Rezgui hafi ferðast til Líbýu, þar sem margir liðsmenn ríkis íslams hafa gengist undir þjálfun. Þó er ekki hægt að útiloka að hann hafi farið ólöglega yfir landamærin.